Laphroaig er lagað á Islay, undan suðvesturströnd Skotlands og er, eins og eyjarinnar er von og vísa, mikið reykt, ágengt, ögrum skorið og brimsorfið og ekki allra, hefur um sig þykka skel en þegar maður kemst innan hennar er erfitt að snúa til baka.
Anganin minnir á varðeld við togarabryggju. Þang, söl, fjara, og, á góðan hátt, heftiplástur en umfram allt er það móreykurinn sem er allt um lykjandi.
Bragðið er reykur og aftur smá reykur, en í bland við hann kemur þessi fjörulallakeimur með sitt þang og sjávarseltu en töluvert eikarkrydd í bakgrunni, minnir kannski á sterkan pipar eða chilli og smá snert af reyktu, alíslensku hangiketi.
Eftirbragðið er langt og mikið. Tjara (ef þú hefur einhvertíman komið nálægt malbikun veistu hvað við eigum við) en það sem lifir lengst er þessi einstaki, salti móreykur sem Laphroaig er þekkt fyrir.
Niðurstaða: Sígilt Islay viskí sem er vissulega ekki allra en ef þið stígið inn fyrir með opinn hug þá er ekki víst að það verði aftur snúið!
Fyrir hverja? Aðdáendur reykts viskís í átt við Ardbeg og Lagavulin. Einnig fyrir fjörulalla og þá sem eru fyrir sjávarfang og þorramat.
Smakkið Laphroaig með hákarlinum og/eða hangiketinu og þið eruð í himnaríki. Slàinte!