Edradour er einn smæsti viskíframleiðandi Skotlands og stendur í hálöndunum, rétt utan við Pitlochry í afar fallegu umhverfi sem er vel þess virði að sjá og heimsækja.
Kjarnaframleiðslan þar ber sama heiti og verksmiðjan sjálf og er sígildur hálendingur sem á afar dyggan aðdáendahóp, þó viskíið skeri sig svolítið frá öðrum hvað bragð varðar en við hjá Viskíhorninu erum hreinskilin og lýsum því yfir að Edradour 10 ára er einn sá sísti einmöltungur sem við höfum smakkað gegnum árin, en öll höfum við jú mismunandi smekk, sem betur fer.
Edradour framleiðir einnig reykt viskí og kemur það út undir öðru heiti, Ballechin.
Nýverið kom 10 ára útgáfan út en árin þar á undan hafa komið út nokkur Ballechin viskí, án aldurstilgreiningar. Við héldum að það kannski yrði ekki mikið úr Ballechin því okkur þótti ekki sérstaklega mikið til koma þegar yngri viskíin voru tekin til kostanna fyrir nokkrum árum.
Það var því sérstaklega ánægjulegt að smakka 10 ára, því þessi örfáu aukaár hafa haft gríðarlega mikið að segja og er þetta eitt besta, reykta hálandaviskí sem völ er á. Þau eru reyndar ekki gríðarmörg þar sem flest reyktu viskíin koma frá eyjunum, Islay aðallega en þau eru jú nokkur. Ballechin stendur reykjarrisunum á Islay síst að baki.
Hvernig bragðast Ballechin 10 svo?
Angan: Viðarreykur, brenndar spýtur, minnir mjög á risana frá Islay, Ardbeg og Laphroaig t.a.m. sem er alveg magnað því Edradour gæti vart verið fjær sjó. Skemmtilegur sítruskeimur þarna einhversstaðar líka og örlítið hunang.
Bragð: Varðeldur, mikill reykur, mjög kröftugt, rífur vel í en þegar bragðlaukarnir jafna sig á reyknum þá sprettur fram sítruskeimur, fjallajurtir, chilli og örlar á vanillu.
Eftirbragð: Langt og þykkt, reykurinn allt um lykur. Það er eins og maður sé með örlítinn varðeld logandi á miðri tungunni, og pínulitla kalla dansandi í kring um hann, syngjandi hástöfum því þetta er algert partí fyrir bragðlaukana. En aftur, bakvið allan reykinn er mikið að gerast, ávextir, hunang, vanilla.
Ballechin hefur eiginlega allt sem við viljum í reyktu viskíi. Frábærlega vel gert hjá Edradour.
Hverjir ættu að smakka Ballechin?
Ekta fyrir aðdáendur Ardbeg, Laphroaig, Caol Ila, Kilchoman og jafnvel Lagavulin.