AnCnoc er viskí sem er í miklum metum hjá Viskíhorninu. Afar fágað og fallegt viskí sem oftast er fáanlegt á mjög hagstæðu verði.
Viskíið er einn fárra einmöltunga sem ekki er nefndur eftir verksmiðjunni en nafninu var breytt árið 1994. Ástæðan er sú að verksmiðjan heitir KnockDhu, en í nágrenni er önnur viskíverksmiðja sem heitir Knockando og vildu menn forðast rugling vegna þess hve nöfnin eru lík. AnCnoc þýðir ,,hæðin” á galísku og er nefnt eftir hæðinni við húsakynnin, þaðan sem vatnið fæst fyrir framleiðsluna.
Knockdhu, frá Huntly, er oft talið sem Speyside viskí, og í mörgum bókum og viskíkortum er það sagt innan Speyhéraðs, en forráðamenn þar vilja ekki skilgreina sig sem Speyside, heldur hálandaviskí. Þegar Viskíhornið fór þangað í heimsókn fyrir nokkrum árum, tók Gordon Bruce, maðurinn í brúnni, það sérstaklega fram. ,,Við erum ekki Speyside!”.
Ástæðan fyrir þessari færslu er sú að nú er nýtt AnCnoc (borið fram ,,Anok”. Þrátt fyrir að ,,C“-ið sé stærsti stafurinn í heitinu, þá er hann þögull) væntanlegt á markað. Vanalega er goggolían frá þeim mjög lítið reykt, örlítið af reyktu byggi er notað við framleiðsluna en núna undanfarið hafa komið nokkrar ögn meira reyktar útgáfur. Væntanleg er PeatHeart sem er sú reyktasta hingað til, eða 40ppm, sem er á pari við Laphroaig.
Spennandi að sjá það í hillum og smakka, enda ávallt afar vel til verka vandað hjá KnockDhu, það getum við vottað.