
The Whisky Exchange verslunin hélt viskíhátíðina The Whisky Show í 9. sinn um mánaðamótin september/október. Viskíhornið lét sig ekki vanta frekar en fyrri daginn, en þetta var í 8. sinn sem við sækjum hátíðina. The Whisky Show hefur stækkað ár frá ári og þetta árið var gríðarlegt magn af viskíi í boði, of mikið til að komast yfir á einum degi en því miður höfðum við einungis tíma til að fara einn dag þetta skiptið. Það var fyrsti dagurinn, föstudagurinn sem varð fyrir valinu.
Sem fyrr segir er úrvalið gífurlegt og smökkuðum við vissulega geysilegt magn. Sem betur fer eru hrákadallar og frítt vatn í boði!
Eftir að hafa staðið í röð fyrir utan í hartnær klukkustund komumst við loks inn í hlýjuna þar sem guðaveigarnar tóku hlýlega á móti manni.
Fyrst var svæðið skannað, lagt á minnið eða punktað niður hvar áhugaverðustu standarnir voru og spjallað við kunnugleg andlit. Strategían sem við höldum okkur við, og er gáfulegust er sú að smakka yngri og léttari viskí fyrst. Síðan vinna sig að þyngri og eldri og sérríþroskuðum viskíum, og geyma þessi reyktu þar til síðast því ef maður smakkar reykt viskí fyrst og síðan óreykt, þá yfirgnæfir reykurinn það óreykta, og maður finnur minna bragð af því. Prófið að fá ykkur Laphroaig sopa og Glenfiddich strax á eftir, og þá sjáiði hvað við erum að fara.
Við teljum ekki upp hvert einasta viskí sem dreypt var á en hér á eftir fara þau helstu og minnisstæðustu.
Fyrsta stopp var Wolfburn standurinn en Wolfburn er ný verksmiðja í norður hálöndunum, stofnuð árið 2012. Reyndar var á árum áður verksmiðja þar undir sama nafni en hún lagði upp laupana seint á 19. öld. Wolfburn er mjög giftuvænleg verksmiðja og full fyrirheita. Viskíið er vissulega ungt eins og gefur að skilja en eftir nokkur ár í viðbót í tunnum, þá má eiga von á mjög góðu. Þess má geta að Wolfburn tók við af Old Pulteney sem nyrsta verksmiðja meginlandsins.
Þarna var einnig nýtt, indverskt viskí sem ber heitið Rampur. Reyndar nær saga þess allt aftur til 1940 en það hefur ekki komið á Bretlandsmarkað fyrr en nú nýlega. Rampurinn kom á óvart, verulega skemmtilegt viskí og stendur frændum sínum Amrut og Paul John síst að baki. Mjög mikill ávöxtur, vanilla og krydd. Mjög spennandi viskí.
Annað eftirminnilegt viskí er Glentauchers 10 ára. Glentauchers er mjög lítt þekkt verksmiðja frá Spey-héraði. Mest af framleiðslunni fer í blönduð viskí eins og Buchanan’s og Black&White og er viskíð flauelsmjúkt og ávaxtaríkt. Viskíhornið hefur smakkað þónokkrar tegundir frá Glentaucher’s og alltaf þótt mikið til koma. Synd að það skuli ekki vera víðfáanlegra.
Nikka var á sínum stað, og er jú Miyagikyo tekið til kostanna hér annarsstaðar, enda viskí mánaðarins. Þarna var 12 ára blanda sem var jafn góð og flaskan er ljót. Þeir hjá Nikka kunna sitt fag og vel það.
Springbank standurinn var á sínum stað og skilaði sínu að vanda, enda er Springbank framúrskarandi viskí að öllu leyti. Þar var vissulega einnig Kilkerran frá GlenGyle sem er í eigu Springbank. Léttreykt, ungt Campbeltownviskí sem skýtur mörgum stærri kanónum ref fyrir rass.
Einn hápunkta hátíðarinnar, hvað ,,venjuleg” viskí varðar var ný útgáfa frá Benromach, en það sem skilur þessa frá öðrum Benrómökum er að hún er þrí-eimuð. Fyrsta sinn sem Benromach reynir slíkar kúnstir og er óhætt að segja að niðurstaðan sé frábær. Mikill vanillu- og súkkulaðikeimur og býsnin öll af ávöxtum. Virkilega vel gert.
Í dag eru þau orðin þónokkuð mörg viskíin frá Asíu og er eftirlætis asíska viskí okkar hjá ‘Horninu, utan japanskra, frá Indlandi, nánar til tekið Paul John. Paul John (hvar eru Ringo og George? En svona í alvöru talað, þá heitir eigandi fyrirtækisins Paul John. Foreldrar hans hafa kannski verið miklir Bítlaaðdáendur). Paul John framleiðir nokkrar mismunandi tegundir, allt frá léttu og óreyktu upp í töluvert mikið reykt og allt þar á milli.

Velunnari Viskíhornsins, Shilton Almeida var vissulega á sínum stað og biður að heilsa! Flottur í tauinu að vanda!
Glenburgie er viskí sem ekki margir hafa smakkað, enda eins og með svo margar aðrar verksmiðjur, þá fer megnið í blöndur, í þessu tilviki fer megnið í Ballantine’s sem er eitt þekktasta og mest selda viskí veraldar. Þarna dreyptum við á tvítunnungi frá 1983 í boði Signatory Vintage átöppunarfyrirtækisins. Gríðarleg ávaxtabomba.
Millstone er hollenskur viskíframleiðandi, já hollenskur. Maður kannski tengir Holland ekki beint við viskíframleiðslu en Millstone-verksmiðjan er að gera allverulega góða hluti. Rúgviskíið þeirra er algerlega framúrskarandi og eitt það allra besta í heiminum. Einnig er nýkomið á markað 10 ára maltviskí sem stendur rúgnum síst að baki. Lyktin kallar fram bros og sjáöldrin tútna út þegar dreypt er á. Mjög ferskt og rennur ótrúlega ljúflega niður. Vanilla, framandi ávextir, hunang, krydd og kókoshnetur jafnvel. Topp viskí.
Besta viskí veraldar á World Whisky Awards var Craigellachie 31s árs. Það var tekið til kostanna og er auðvelt að sjá hvers vegna það var hlutskarpast á þessum tilteknu verðlaunum. Gríðarlega slungið viskí, mjög mikið að gerast. Ferskur ávaxtakeimur, vanilla og hunangssæta með karamellu/toffíkeim. Þó getur verið erfitt að nálgast flösku, vissulega vegna þessara verðlauna og einnig vegna þess að eins og er er Craigellachi 31s eingöngu fyrir fríhafnir.
Highland Park er í miklu uppáhaldi Viskíhornsins og dreyptum við á nýju útgáfunni þaðan, Valkyrie sem er sú fyrsta í röð flaskna sem hannaðar eru af hinum danska hönnuði og víkingi Jim Lyngvild. Valkyrie er ögn meira reykt en maður á að venjast frá Highland Park. Við fundum reykinn, hann vissulega er þarna í ögn meiri mæli en vanalega. Hann er þó frekar feiminn en opnar sig með tímanum og er einhvernveginn dálítið gúmmíkenndur, eins og eftir gott spól á Bíladögum. Þarna kemur fram súkkulaðikeimur, dálítill ávöxtur og krydd. Appelsínur.
Togouchi hið ,,japanska” er viskí sem við finnum okkur knúin til að nefna. Það er nefnilega ekki japanskt. Í Japan eru reglurnar ekki jafn stífar og í Skotlandi, þar sem ÖLL stig framleiðslunnar þurfa að fara fram þar í landi til að mega kalla afurðina ,,scotch”. Það er ekki reyndin í Japan. Umbúðirnar eru japanskar, nafnið er japanskt en viskíið er skoskt og kanadískt. Frá hvaða framleiðendum skal ósagt látið, en ekki dropi í Togouchi er japanskur. Viskíið er eingöngu þroskað í Japan. Það hefur því skilið eftir sig ansi stór kolefnisspor. Viskíið er ágætt, ekkert sem þarf að hafa mörg orð um.
Að lokum má nefna nýjan, sænskan framleiðanda. Hven. Sá kom mér á óvart. Ungt, en framúrskarandi vel þroskað viskí sem sparkar fast í afturendann á öðru sænsku viskíi, Box. Mackmyra er þó ennþá konungurinn af Svíþjóð.
Það var ekki gríðarmikið af spennandi reyktum viskíum en þó nokkur sem vissulega var ekki hægt að skríða út fyrr en eftir að hafa prófað. Eitt þeirra var reyktasta viskí sem framleitt hefur verið, Octomore 08.3 sem er heil 307ppm. Þess má geta að Ardbeg er 55ppm. Þetta er vissulega komið út í rugl því það eru mettunarmörk sennilega kringum 70ppm, þar sem maður hættir að finna muninn. Vissulega þó skemmtilegt að prófa og það er merkilega flókið viskíið þrátt fyrir þennan mikla reyk. Auðvitað er hann yfirgnæfandi en þarna má greina ávexti eins og ferskjur, dálitla eik og vanillu, strandablær og sjávarselta. Reykurinn er þó það sem þetta snýst allt saman um.
Eftirbragðið er svolítið eins og maður hafi tuggið brunna spýtu og fengið sér rótsterkan Cohiba vindil á eftir. Bragðlaukarnir eiga erfitt með að taka á þessu öllu saman og vissulega er eiginlega nauðsynlegt að þynna ögn með vatni, sem gerir þetta aðgengilegra og losar um öll mismunandi brögðin sem eru svolítið feimin og fela sig bakvið móreykjarstækjuna. Þetta tekur tíma, þið verðið að gefa ykkur góða stund með Octomore. Ef vinskapurinn er ekki mikill til að byrja með þá lagast það, sérstaklega með vatnsdropa sem mildar þessa skepnu sem Octomore er.
Önnur reykbomba sem var skoðuð var Kilchoman Red Wine Cask. Viskíhornið er mikill aðdáandi Kilchoman, sem er nýlegur framleiðandi á Islay, stofnaður 2005. Árlegu hliðarútgáfurnar þeirra hafa verið meiriháttar. Sauternes tunnan í fyrra er mjög eftirminnileg. Reykur og rauðvín á ekki alltaf vel saman að okkar mati og vorum við því ögn tortryggin, og jú, sú er einnig raunin þarna. Þetta er svolítið ringlað viskí, eins og það viti ekki alveg hvað það vill vera. Okkar upplifun er sú að þetta hjónaband, reykur og rauðvín, sé svolítið stormasamt og gangi ekki nógu vel upp. Vissulega gott og vel gert viskí, en sísta útgáfa Kilchoman í nokkurn tíma.
Frábær viskíhátíð að baki og það sem einna helst stóð upp úr eru Hollendingarnir hjá Millstone, sérstaklega kannski vegna þess hve það kom manni að óvörum. En einnig jú, vegna þess að það er framúrskarandi viskí.
Annar hápunktur var Benromach Triple.
Við hlökkum til The Whisky Show 2018. Það er bara allt of langt þangað til!
Skál!