Glenfiddich 12

Glenfiddich er ein fjölmargra verksmiðja í Spey-héraði. Saga hennar nær aftur til ársins 1886 og er hún enn í eigu sömu fjölskyldu og stofnaði hana á sínum tíma, sem er nánast óheyrt í dag. Stofnandinn hét William Grant en í dag heitir fyrirtækið William Grant & Sons og á einnig Balvenie og Kininvie. (Kininvie framleiðir mestmegnis viskí sem er blandað saman við hin tvö í þrímöltungi sem nefnist Monkey Shoulder og hafa vinsældir hans aukist mikið nýlega, enda léttur og aðgengilegur, vinsæll í hanastél enda blandast hann vel og er á góðu verði).

Single Malt viskí voru í dentíð almennt ekki markaðssett sem slík, þó þau væru á markaði og þess má geta að árið 1963 varð Glenfiddich fyrsti framleiðandinn til að markaðssetja sitt viskí sem einmöltung, eða Single Malt. Síðan þá hafa vinsældir einmöltunga aukist verulega, utan smá niðursveiflu kringum 9. áratuginn.

Framleiðslugeta Glenfiddich er gríðarmikil enda ein sú stærsta í Skotlandi, með framleiðslugetu upp á 14. milljónir lítra árlega en þess má geta að í augnablikinu er unnið að byggingu annarrar verksmiðju á landareigninni. Sú verður með framleiðslugetu upp á 6-7 milljónir lítra og því fer heildarframleiðslan upp í, eða jafnvel yfir 20.000.000 lítra. Ekkert smáræði!

Eins og gefur að skilja eru margar aðrar tegundir í boði en kjarninn er sá 12 ára og við ætlum aðeins að skoða hann.

Glenfiddich 12 ára er mjög aðgengilegt, mjúkt, létt, ávaxtaríkt, elegant og með töluverða vanillu. Það höfðar til smekks afar margra, enda má kannski segja að það sé hannað til þess, sem að e-u leyti útskýrir vinsældir þess.

Þetta er alls ekki flóknasta viskí í heimi en það er heldur ekkert að reyna það. Tilgerðarlaust, fágað viskí sem ætti jú að vera til í viskískápum flestra áhugamanna og ætti að vera til í öllum Vínbúðum. Það er bara þannig.

Glenfiddich er sígilt Speyside viskí, og hafi einhver heyrt minnst á aðeins einn einmöltung, er mjög líklegt að sá sé Glenfiddich.

Glenfiddich er að langmestu leyti úr búrbontunnum en einnig koma sérrítunnur við sögu.

Angan: Vanilla, mikill ávöxtur, perur, græn epli.

Bragð: Vanilla, hunang og fyrrnefndir ávextir. Ekki kyngja of snemma því bragðið breytist á tungunni, viskíið opnast mjög vel og þú missir af því þegar ávextirnir virkilega koma fram ef kyngir of snemma. Japlaðu á því drykklanga (!) stund.

Eftirbragð: Mestmegnis vanilla, en þessir fersku ávextir staldra ögn við.

Niðurstaða: Virkilega vel gert viskí, mjög aðgengilegt en það er jú má segja, hannað til að höfða til sem flestra. Ekki flóknasta viskí í heimi, en gerir sitt gagn og vel það. Fullkomið byrjendaviskí fyrir þá sem vilja ekki henda sér í djúpu laugina strax.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.