Viskí hefur verið framleitt í Japan allar götur frá 1923/4, og nálgast því næstum heila öld. Það var drykkjaframleiðandinn Yamazaki sem reið á vaðið, sem framleiðir í dag eitt eftirsóttasta viskí Japans, og gervallrar veraldar ef því er að skipta.
Ætlunin er að skoða hinn risann í japanskri viskígerð, Nikka. Nikka var stofnuð af herramanninum Masataka Taketsuru og er saga hans rakin stuttlega HÉR. Hann lærði viskígerð (og lyfjafræði) í Skotlandi og flutti síðan til baka á heimaslóðir með þekkinguna sem hann hafði viðað að sér og stofnaði Nikka árið 1934.
Kjarnaframleiðsla Nikka eru tveir einmöltungar, Yoichi og Miyagikyo auk blöndunganna Taketsuru og annars samnefndum verksmiðjunni.
Eftirspurn eftir japönskum viskíum í dag er gríðarleg og getur því verið erfitt að nálgast dropann. Nikka tók nýverið úr sölu 10 ára Yoichi og Miyagikyo því ekki var til nóg af a.m.k. 10 ára á lager, og kom í staðinn með yngri útgáfur sem báru enga aldurstilgreiningu.
Við hjá Viskíhorninu höfum smakkað þónokkurn fjölda japanskra viskía og hefur Miyagikyo yfirleitt hitt beint í mark.
Angan: Svolítið ágeng til að byrja með en opnast svo unaðslega eftir drykklanga stund í glasinu. Ferskt, súkkulaði og þetta kann að hljóma undarlega í eyrum sumra, en anganin minnti okkur á klassíska, íslenska rjómatertu! Þarna er hægt að greina alls kyns ávexti, mikinn banana sem og hunang. Mjög margslungið og áhugavert. Maður getur vart beðið eftir smakkinu.
Bragð: Mjög fágað og það verður hálfgerð bragðsprenging á tungunni og um munninn allan hreinlega, mjög ,,creamy”, þykk rjómakennd áferð. Mikill ávöxtur (bananar, mangó), örlar á byggbragði því jú, þetta er frekar ungt, jarðarber, hunang og erum ekki frá því að það sér þarna örlítill anís/lakkrískeimur. Algert partí fyrir bragðlaukana!
Eftirbragð: Millilangt og silkimjúkt og maður greinir helst þennan ferska ávaxtakeim sem er af Miyagikyo. Kollegi nefndi tóbakslauf og ætlum við að leyfa því að standa.
Niðurstaða: Frábært viskí frá hinum stöðugt stórgóða framleiðanda, Nikka. Ef viskíaðdáendur hnjóta um flösku, þá er ekki hægt annað en að mæla með að grípa eina.
Fyrir hverja? Nikka viskí eru framleidd á nánast sama hátt og skosk og eru mörg hver keimlík frændum sínum Skotum. Miyagikyo myndi hitta í mark hjá aðdáendum hálandaviskía. Balblair, Tomatin og hugsanlega Clynelish til að nefna einhver.