Smokehead er frá viskíhúsi á Islay en það er ekki tekið nákvæmlega fram hvaðan það kemur að öðru leyti. Sagan segir að í árdaga Smokehead hafið það komið frá Ardbeg, en okkur grunar að það hafi breyst því Ardbeg strögglar við að fylla á sínar eigin flöskur í dag, hvað þá að gefa átöppunarfyrirtækjum eitthvað í té. Auk þess bragðast það ekki beint einsog Ardbeg, heldur virðast vötnin falla til Caol Ila. Okkar ágiskun er að þetta sé ungt Caol Ila. Hvað sem því líður þá er þetta yndislega reykt viskí, fyrir Islay aðdáendur, og kemur í ansi skemmtilegum hrekkjavökuöskjum.
Angan: Reykur og meiri reykur. Ungt og móreykurinn sem hefur leikið um byggið í framleiðsluferlinu lifir enn mjög góðu lífi og er afar áberandi sem segir manni að þetta sé frekar ungt viskí. Sjávarselta, þang, söl og salt.
Bragð: Það er erfitt að horfa framhjá reyknum til að byrja með en eftir augnablik kviknar á ferskum ávöxtum í átt að vel þroskuðum perum. Með góðu hugarfari er hægt að finna aðra ávexti eins og mangó og jafnvel rúsínur. Reykurinn nánast allt um lykur þó. Jarðar-/moldarkeimur.
Eftirbragð: Reykur, svolítið eins og eftir eitt púff af sverum Kúbuvindli.
Fáanlegt hjá RMW og í fríhöfninni í Keflavík.