Rétt við eyjuna Skye undan vesturströnd Skotlands er agnarsmá eyja sem nefnist Raasay sem telur einungis um 160 eyjarskeggja en þeim hefur farið ört fækkandi undanfarna áratugi. Um þarsíðustu aldamót bjuggu þar um 500 manns, 1960 bjuggu þar 223, og 195 árið 2000. Vonandi verður þetta til að sporna við þessari uggvænlegu þróun. Helsti atvinnuvegur er ferðamennska en landslagið á Raasay er afskaplega fallegt. Margir stoppa þar við á leið sinni til Skye eyjarinnar sem er steinsnar frá.
Þrátt fyrir smæðina og allar blikurnar sem eru á lofti vegna fólksfækkunar, var þar að opna ný viskíverksmiðja sem ber heiti eyjarinnar. Viskíframleiðsla hófst þar nú í september 2017 en fram til þessa hafa komið út viskívísar undir heitinu While We Wait, en þeir voru eimaðir í ótilgetinni verksmiðju einhversstaðar í Skotlandi. Það er alls ekki gefið upp hvar þeir urðu til, algert hernaðarleyndarmál.
En, sem fyrr segir, þá var framleiðsla að hefjast rétt í þessu í hinni nýbyggðu verksmiðju á þessari agnarsmáu eyju og verður spennandi að sjá hvað verður.
Viskíhorninu hefur áskotnast nokkrar af As We Wait útgáfunum, þetta lofar afar góðu fyrir framhaldið og er engin ástæða til að ætla annað en að eftir a.m.k. 3 ár í eik, að þetta verði hið ljúfasta viskí.
Stefnan er að framleiða létt ávaxtaríkt viskí með örlitlum reykjarkeim í bakgrunni og tunnurnar sem þeir hafa tiltækar eru búrbon-, sérrí- og rauðvínstunnur.