Girvan – Verksmiðjuheimsókn

Rétt utan við þorpið rekur William Grant&Sons (Glenfiddich, Balvenie og Kininvie) kornverksmiðjuna Girvan og maltviskíverksmiðjuna Ailsa Bay.

Auk þess er Hendrick’s ginið framleitt þar í ótrúlega smáum húsakynnum miðað við hversu auðfáanlegt það er um gervalla veröld.

Þess má til gamans geta að húsakynni Girvan og Hendrick’s voru byggð og notuð sem vopnaframleiðsla í seinna stríði og eru upprunalegu húsakynnin því sprengjuheld.

Þar eru framleiddar milljónir lítra af kornviskíi úr síeimurum árlega, sem mestmegnis fara í Grant’s blöndunginn sem er eitt mest selda viskí heimsins í dag sem og undanfarin ár.

Framleiðslugeta þessara tveggja verksmiðja er gríðarleg, á skala sem sést ekki víða annarsstaðar.

Umhverfi Girvanverksmiðjunnar er virkilega fallegt, en sama er ekki hægt að segja um verksmiðjuna sjálfa. Í vestri undan ströndinni blasir við graníteyjan Ailsa Craig, en þeir sem hafa séð flösku af Ailsa Bay viskíinu hafa tekið eftir því að tappinn er gerður úr graníti, sem kemur jú úr Ailsa Craig. Þess má geta að hver tappi kostar William Grant’s fimm sterlingspund! Töluvert granít er notað í tappann og er flaskan öll með þeim þyngri í bransanum.

Til gamans má geta að mikill hluti krullusteina, fyrir hina æsispennandi íþrótt krullu (e. curling) er gerður úr graníti frá þessari sömu eyju.

Sem fyrr segir er bæjarstæðið mjög fallegt eins og víða í Skotlandi reyndar. Afar fallegt land, Skotland, en verksmiðjurnar sjálfar, Girvan og Ailsa Bay eru alls ekki mikið fyrir augað og minna einna helst á olíuborpall (Girvan) og frystihús (Ailsa Bay).

Þær hafa langt í frá eins mikinn karakter og velflestar viskíverksmiðjur Skota og eru alls ekki byggðar með nein fagurfræðileg sjónarmið í huga, heldur eingöngu afkastagetu, sem er sem fyrr segir, gríðarleg og er framleiðslan öll tölvustýrð og kemur mannshöndin sjaldan nærri.

Girvan verksmiðjan var byggð árið 1963 og framleiðir eingöngu kornviskí sem notuð eru til blöndunar í hin ýmsu viskí, en sem fyrr segir fer megnið í Grant’s auk annarra blöndunga fyrir meginland Evrópu og víðar.

Reyndar fór þar fram framleiðsla einmöltungs sem er gríðarlega eftirsóttur í dag enda er sú framleiðsla einmöltungs ein sú stysta sem um getur, en sá, Ladyburn, var eingöngu framleiddur á árunum 1968-1975.

Ailsa Bay var byggð árið 2007 og er þar framleiddur mikið reyktur einmöltungur sem ber sama nafn. Þar eru heilir 16 potteimarar, 8 vaskeimarar og 8 spíraeimarar og framleiðslugetan því geysimikil. Megnið fer í blöndur en nú er nýlega kominn á markað einmöltungur undir sama nafni.

Sá er mikið reyktur, svipað mikið og t.d. Ardbeg en hann er einnig töluvert sætur, en það var einmitt markmið maltmeistara W. Grant’s, Brian Kinsman að ná fram meiri sætu en vaninn er með reykt viskí.

 

 

Mjög áhugaverð verksmiðja heim að sækja þrátt fyrir allt og kann Viskíhornið þeim Girvangæjum bestu þakkir fyrir heimboðið.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.