Viskí frá Islay eru nánast undantekningarlaust reykt, nánast. Þar eru tveir framleiðendur sem framleiða að mestu óreykt viskí. Þeir eru Bruichladdich (sem til hliðar framleiða afar reykt viskí) og Bunnahabhain sem er vanalega að mestu óreykt, en þó með undantekningum. Standardarnir frá Bunnahabhain (borið fram Bunnahaven) eru 12 ára og 18 ára.
Bunnahabhain var stofnuð árið 1881 og er hún nyrsta viskíverksmiðjan á eynni Islay, rétt norðan við Caol Ila framleiðandann sem flestir fylgjendur Viskíhornsins þekkja sennilega.
Lítum snöggt á sögu Bunnahabhain.
Sem fyrr sagði var fyrirtækið stofnað árið 1881 og hófst framleiðsla tveimur árum síðar.
Eins og fyrir margar aðrar viskíverksmiðjur í landi Skota, þá var 9. áratugurinn Bunnahabhain erfiður og var verksmiðjunni lokað árið 1982, en einungis liðu þó tvö ár þar til hún opnaði á ný. Nýir eigendur tóku við árið 1999 en stöðvuðu framleiðslu tímabundið og var hún í lausu lofti allt þar til núverandi eigendur (Burn Stewart) keyptu hana árið 2003 en síðan þá hefur Bunnahabhain verið í banastuði og hafa 12 og 18 ára verið í stöðugri framleiðslu ásamt nokkrum öðrum útgáfum sem hafa komið í takmörkuðu upplagi. Þar má helst geta Bunnahabhain Moine sem er mikið reykt og úr Oloroso sérrítunnum, og er algjör bomba, eða B. O. B. A. eins og sumir myndu orða það. Einnig má geta Toiteach (Tokhtjakk) sem er einnig mjög reykt en minna um sig, ekki eins digurt og Moine.
Þess má geta að fram til ársins 1963 þá framleiddi Bunnahabhain mestmegnis reykt viskí en ákváðu að stíga til hliðar frá norminu á Islay, skera sig úr.
Þá er það aðalmálið: Hvernig bragðast Bunnahabhain svo?
12 ára 46.3%.
Angan: Nokkuð fersk, það örlar á sjávarseltu og jú, það er þarna örlítill mór ef maður ber sig eftir honum. Hann er frekar ógreinilegur. Hnetur og vanilla, söl og töluvert bygg.
Bragð: Umtalsverður sérríkeimur, en hlutfall sérrítunna var aukið nokkuð fyrir u.þ.b. sex árum síðan og það kemur fram örlítill rúsínukeimur sem oft einkennir viskí úr sérrítunnum. Hnetur (valhnetur?), maltað bygg. Það er þarna líka einhver sítruskenndur ávaxtakeimur, minnir sennilega á appelsínur, jafnvel greipaldin.
Eftirbragð: Meðallangt, skilur eftir sig örlítinn sjávarseltukeim, krydd og svolítið þungt bragð sem minnir á kaffi, swiss mocha jafnvel.
Mjög gott viskí sem fæst á góðu verði. Burn Stewart mega eiga það að þegar sérríáhrifin voru aukin og styrkurinn færður úr 40% upp í 46.3%, þá hækkaði verðið sama og ekkert. Vel gert.