Lone Wolf – ný framsækin verksmiðja

Það er gósentíð í viskíbransanum um þessar mundir og aragrúi nýrra verksmiðja að skjóta upp kollinum. Það er eiginlega alveg ótrúlegt hvað þær eru margar, maður heyrir um nýja nánast á hverjum degi, allt frá pínulitlum örframleiðendum á Isle of Lewis (Abhainn Dearg, borið fram Avenn Djarrek) allt niður í risa eins og Dalmunach sem er í eigu Chivasbræðra. Þess má geta að Dalmunach er í byggingu á sama stað og Imperial var, sem lagði upp laupana fyrir nokkrum árum. Einnig eru gamlir vinir að rakna úr rotinu, eins og hið sögufræga láglandaviskí, Bladnoch. Þess má geta að eftir að allar þessar örverksmiðjur hafa opnað, er Edradour ekki lengur minnsti framleiðandinn. Það var alltaf tekið fram á Edradourflöskunum að það sé ,,Scotland’s smallest distillery” en glöggir hafa kannski tekið eftir að það stendur ekki lengur á nýrri Edradour flöskum.

Ein þessara verksmiðja er í eigu bjórframleiðanda sem er mörgum kunnugur, jafnvel Íslendingum, því Ísland hefur ekki farið varhluta af bjórsprengingunni sem er um allt þessa dagana. Framleiðandinn sem um ræðir er Brewdog, sem er stærsti, bjórframleiðandi Bretlands í einkaeigu. Uppgangur þeirrar verksmiðju hefur verið með ólíkindum undanfarin ár, nánast frá fyrsta degi. Brewdog var stofnað árið 2007 og telur í dag 540 starfsmenn, framleiða 65 tegundir bjórs og hafa opnað heila 44 bjórbari um allan heim, allt frá Brasilíu til Japan og nánast allstaðar þar á milli!

Árið 2014 ákvað Brewdog að opna viskíverksmiðju í Skotlandi, nánar tiltekið í Fellon, sem er rétt utan við Aberdeen, með framleiðslugetu upp á 450.000 lítra á ári.

Steven Kearsley, gömul kempa í viskífræðum, með starfsreynslu frá hinum ýmsu verksmiðjum á vegum Diageo, var fenginn til að stýra skútunni svo hún ætti að vera í góðum höndum

Verksmiðjan, sem heitir Lone Wolf kemur til með að vera mjög framsækin og ætla menn að prófa sig áfram með hinar ýmsustu framleiðsluaðferðir, mismunandi tunnur, jafnvel aðrar en eikartunnur, mismunandi byggþurrkunaraðferðir og ætla ekki að takmarka sig við maltviskí heldur er þar einnig framleitt rúgviskí, búrbonlíki, vodka, gin og ýmiskonar brandí og vissulega verður þar bjórframleiðsla líka, því eftirspurn eftir Brewdog er engu lík. Þegar er gin- og vodkaframleiðsla hafin en viskíframleiðsla er rétt nýhafin eða um það bil að hefjast.

Spennandi að sjá hvað verður úr þegar litli bróðir viskísins tekur sig til og fer að framleiða stóra bróður!

Brewdog hefur verið að skjóta upp kollinum víða sem fyrr segir og m.a.s. á Íslandi og eftir því sem Viskíhornið kemst næst, er hann vanalega í boði á hinum frábæra bjórbar Skúli Craft Bar í Aðalstræti 9, Rvk.

Skál fyrir Brewdog!


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.