Ledaig er kannski ekki best þekkta viskí veraldar, en heitið á framleiðandanum er jú mun betur þekkt, en Ledaig er framleitt af Tobermory verksmiðjunni á Isle of Mull. Tobermory viskíið er sama og óreykt með töluverðan ávöxt og strandablæ. Þegar Tobermory býr til reykt viskí þá er það nefnt Ledaig.
Þess má geta að eins og er, þá er Tobermory ófáanlegt sem einmöltungur vegna gríðarlegrar eftirspurnar eftir tveimur blönduðum viskíum sem notast m.a. við Tobermory, en þau eru Scottish Leader og Black Bottle. Maltinnihaldið í Scottish Leader var aukið árið 2014 sem þýðir að meira af Tobermory viskíi þarf til framleiðslu Scottish Leader, sem er eitt söluhæsta viskí veraldar.
Sem fyrr segir þá er Ledaig framleitt á Isle of Mull, sem er undan vesturströnd Skotlands, beint norður af Islay. Þar er Tobermory eina viskíverksmiðjan, en á eynni búa einungis tæpar 2700 hræður.
Tobermory var stofnað árið 1798 og er því með elstu viskíverksmiðjum Skotlands en rekstur hennar hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Verksmiðjan varð gjaldþrota og lokaði árið 1930. Árið 1972 var stofnað fyrirtæki í kringum kaup á verksmiðjunni, en það fyrirtæki hlaut nafnið Ledaig Distillery Ltd. en það gekk nú ekki lengi því þremur árum síðar fór fyrirtækið á hausinn. Aftur, árið 1979, var stofnað fyrirtæki vegna kaupa á verksmiðjunni og í þetta skiptið var það nefnt Tobermory Distillers Ltd. en það var lítil framleiðsla þarna í byrjun 9. áratugarins en árin milli 1980 og 1985 reyndust mörgum verksmiðjum erfið og urðu þær nokkuð margar gjaldþrota á því tímabili.
Framleiðsla hófst ekki fyrr en árið 1989 og fjórum árum seinna keypti drykkjarisinn Burns Stewart verkmiðjuna. Síðan þá hefur framleiðslan verið stöðug og sem fyrr segir þá á Tobermory erfitt með að anna eftirspurn.
10 ára Ledaig kom á markað árið 2007 og hefur verið í kjarnaframleiðslu Tobermory æ síðan.
Ledaig 10 er léttreykt. Reykurinn minnir ögn á 10 ára Talisker, sem fleiri þekkja.
Anganin: Gefur töluverðan reyk, hnetur og söltugan strandablæ.
Bragð: Aftur er það reykurinn sem spilar stærstu rulluna en á bakvið hann koma fram ávextir, krydd og jafnvel smá hunang. Það er þó alveg ljóst að þetta er eyjaviskí, strandakeimurinn er áberandi, joð, þurrkaður þari og söl.
Eftirbragð: Miðlungslangt með bragð sem minnir á anís, þarna er líka nýmulinn pipar og jú, töluverður reykur. Svolítið skarpt og þurrt eftirbragð.
Ledaig 10 er tilvalið fyrir aðdáendur reyktra viskía sem vilja prófa eitthvað nýtt án þess að dælda bankareikninginn of mikið. Ekta fyrir aðdáendur Talisker, Caol Ila og jafnvel Lagavulin. Þess má geta að Ledaig er borið fram ,,Ledsjigg” og þýðir á galísku ,,safe haven” eða ,,griðastaður”.