Þetta er vissulega alveg svakaleg reyksprengja en það er sitthvað annað sem lætur á sér kræla þegar lyktað er af dýrinu, svo sem framandi ávaxta- eða jafnvel berjakeimur. Ferskjur, eik, vanilla. Mikill fjörublær, sjávarsalt, togarakaðlar en umfram allt móreykur. Eftirbragðið er svolítið eins og maður hafi tuggið brunna spýtu og fengið sér rótsterkan Cohiba vindil á eftir.
Bragðlaukarnir eiga erfitt með að taka á þessu öllu saman og vissulega er eiginlega nauðsynlegt að þynna ögn með vatni, sem gerir þetta aðgengilegra og losar um öll mismunandi brögðin sem eru svolítið feimin og fela sig bakvið móreykjarstækjuna. Þetta tekur tíma, þið verðið að gefa ykkur góða stund með Octomore. Ef vinskapurinn er ekki mikill til að byrja með þá lagast það, sérstaklega með vatnsdropa sem mildar þessa skepnu sem Octomore er.
Þetta er ekki fyrir alla, en fyrir aðdáendur Islayviskía þá er nauðsynlegt að prófa Octomore einhverntímann á lífsleiðinni.