Viðtal við Eimverk

🇬🇧 English version

Flóki er fyrsta, og hingað til, eina íslenska viskíið. Framleiðandinn, Eimverk er í Garðabæ og var fyrirtækið stofnað árið 2009. Fyrsti einmöltungurinn skaut upp kollinum 2017, en fram að því var einungis fáanlegt ,,ungmalt” eða ,,young malt” sem er fremur ungt. Hafa eigendur Eimverks tekið þann pólinn í hæðina að nefna það ekki ,,single malt” eða einmöltung fyrr en það hefur legið á tunnum í þrjú ár hið minnsta, rétt eins og tíðkast hjá frændum okkar Skotum. Nánar um Flóki Young Malt hér.

Egill eimingarmeistari Eimverks

Í upphafi fór gríðarleg vinna og tími í að finna réttu uppskriftina, réttu aðferðina, réttu tunnurnar o.þ.h. og allt í allt voru gerðar hvorki fleiri né færri en 163 tilraunir þar til rétta uppskriftin fannst að lokum. Framleiðsla hófst síðan árið 2014.

Hvernig kom þetta til, að þið ákváðuð að stofna fyrstu íslensku viskíverksmiðjuna?

Hugmyndin var búinn að liggja lengi í loftinu, ekki bara hjá okkur, það var einvernvegin augljóst að það var kominn tími á íslenskt viskí. Á Íslandi er ræktað mikið magn af byggi við aðstæður og veðurfar sem er mjög líkt aðstæðum í Skotlandi á 19. öld, þau ár sem að skoskt viskí þróaðist yfir í það sem við þekkjum í dag. Við eigum einnig nóg af góðu vatni, hreinni orku og hæfileikaríku fólki. 

Við ákváðum að prófa, fyrst á eldhúsborðinu, svo í skúrnum og síðan koll af kolli, og á endanum voru þetta 163 útfærslur sem voru prófaðar á 4 fyrstu árunum til þess að fullkomna uppskriftina. Þannig er Flóki afrakstur af 4 ára þróunarstarfi frá 2009, eiginleg framleiðsla hófst ekki fyrr en í árslok 2013.

Hverjir standa að baki Eimverki?

Eimverk er fjölskyldufyrirtæki og það hefur komið sér vel að hafa breiðan hóp af sterku fólki í hópi stofnenda, að byggja upp verksmiðju og vörumerki til útflutings er töluvert flókið mál og meira en bara að brugga viskí. Við erum allt í öllu saman en skiptum þó hlutverkum svona niður: Egill er eimingarmeistari (e. Master Distiller); Eva sér um gæðamál og framleiðslustýringu; Sigrún sér um erlenda markaði og fjármál; Þorkell og Bjössi rækta bygg og reykja; og Halli er framkvæmdastjóri.

Hvaðan kemur byggið sem þið notið við framleiðsluna?

Allt okkar bygg er 100% íslenskt, við ræktum talsvert af því sjálf á Bjálmholti sem er fjölskyldubærinn, en við vinnum einnig mjög náið með bændum og höfum fengið korn frá Þorvaldseyri, Sandhóli og Vallanesi.

Geturðu sagt okkur í stuttu máli frá framleiðsluferlinu?

Flóki er tví-potteimað viskí. Við fylgjum þannig mestu leiti klassísku skosku aðferðinni.

Það er þó svo að við lögðum alltaf upp með það að búa til frábært, íslenskt viskí, og höfum lagt mikið uppúr að þróa uppskriftina á íslandi og nota endurgjöf frá íslendingum við þá þróun.

Sérstaðan okkar er þar helst:

  • Eingöngu íslenskt bygg. Íslenska byggið er sérlega bragðmikið og gefur gott, kryddað eftirbragð.
  • Við aðskiljum ekki kornið okkar frá við meskingu heldur fær það að fylgja með í gerjun og fyrstu eimingu, þetta gefur ríkara bragð, meiri olíu og krydd frá grunnhráefninu sem skilar sér í bragðmeiri og mýkra hráviskíi (viskí áður en það er aldrað á tunnu).
  • Við eimum spírann hægar og þar með með meiri bakflæði en Skotarnir og fáum þar mýkra hráviskí, það má segja að þetta setji okkur etv. nær írsku viskí sem oftast er 2.5 eða 3x eimað.
  • Öldrunin á ungmaltinu (e. Young Malt) okkar fer fram í nýjum eikartunnum og við íslenskar, upphitaðar aðstæður, þ.e. þurrt og tiltörulega heitt. Þess vegna er mikil uppgufun, öldrun tiltörulega hröð og tunnun kemur vel fram í bragðinu. Flóki Single Malt Whisky er hins vegar aldraður í óupphitaðri hlöðu í notuðum ungmaltstunnum, og fær því öldrun svipaða klassísku „dunnage-vöruhúsaöldrun”.
  • Við notum íslenska taðreikingu fyrir reiktan Flóka frekar en móreikingu. 

Í dag bjóðum við uppá Flóki Ungmalt, taðreykt og óreykt og Flóki einmöltungur (e. Single Malt). Á næstu árum er svo von á fleiri útfærslum af Flóka, við erum til dæmis með áhugaverðar tvítunnu tilraunir (e. Double Wood) í gangi.

Hvar er hægt að nálgast fyrsta einmöltung Íslendinga?

Fyrsti einmöltungurinn kom loks á markaði í nóvember 2017, Flóki Single Malt er fáanlegur í Fríhöfninni og í sérpöntun hjá ÁTVR.

Hvaðan koma tunnurnar sem þið notið?

Við fáum nýjar tunnur frá Spreyside Cooperage. Þegar ungmaltið hefur legið á þeim þá notum við þær aftur fyrir Flóka Single Malt sem fær að aldrast talsvert lengur.  

Með þessu fáum náum við að stýra gæðum á notuðu „Young Malt“ tunnunum okkar.

Þurfið þið að fara eftir skosku, þriggja ára reglunni? Getið þið ekki búið til og farið eftir eigin reglum, því það hefur jú aldrei verið framleitt viskí á Íslandi áður?

Við sennilega gætum það en það stendur ekki til. Við berum mikla virðingu fyrir viskí sögunni og þeim hefðum sem hafa skapast þar. Okkur finnst sjálfum 12 ára skoskt viskí frábært og erum að aldra okkar eigið 12 ára. Við fílum líka ungt, amerískt og margar áhugaverðar nýjungar eru líka að koma á markað. Þetta á sér allt sinn stað.

Ungmaltið okkar er tæknilega séð ekki viskí og aðeins merkt „Young Malt“. Sem slíkt tilheyrir það raunar vaxandi flokki af áhugaverðum tilbrigðum af „ekki viskí“ viskí. Í þessum flokki eru til dæmis: „Mikkeller Spirits Black“ serían frá Mikkeller, Abomination frá Lost Spirits, Young Rye frá Stauning Whisky. Eins verður gaman að sjá hvað Brewdog mun gera í þessum flokki.

Í ungmaltinu höfum við frelsi til að leika okkur aðeins meira, hér koma í framtíðinni frá okkur fleiri útfærslur með tvítunnun, yfirreikt, íslensk birkitunna og fleira.  

Flóki Single Malt Whisky er hinsvegar klassískur og er að minnsta kosti 3 ár á notuðum tunnum.

Hvernig hentar íslenskt bygg til framleiðslunnar?

Íslenskt bygg hentar vel í viskígerð, það vex hægt og er bragðmikið. Hinsvegar hefur það ekki endilega gefist vel í bjórgerð, það er áhugavert að bygg sem er ræktað á norðlægum slóðum gefst yfirleitt betur fyrir viskígerð heldur en bjórgerð, það má með þessu einnig sjá að þau lönd sem eru hvað þekktust fyrir Single Malt viskígerð eru yfirleitt á norðlægari slóðum (Skotland, Japan, Kanada) heldur en þau sem eru þekkt fyrir mikla bjórgerð (Þýskaland, Tékkland, Danmörk).

Hver hannar umbúðirnar?

Umbúðinar eru hannaðar í teymisvinnu innan Eimverks. Fyrst þarf að ákveða hvað varan á að heita, hvaða skilaboð þurfa að koma fram og síðan setjum við yfirleitt þær hönnunarlínur í samkeppni meðal alþjóðlegra hönnuða. Við vinnum svo úr niðustöðu samkeppninnar og klárum hönnun til að koma vörunni á markað.

Þið voruð að gera taðreykt viskí, sem er mjög spennandi og öðruvísi. Hvernig kom það út? Hvernig hentar íslenskur mór annars? Hafiði gert einhverjar tilraunir með hann?

Taðreykt viskí hefur heppnast mjög vel, sá reykur spilar einstaklega vel með íslenska bygginu. Taðreykingin gefur ljúft kryddaða og reykta fyllingu sem finnst hvergi annars staðar.

Mór var eitt aðal eldsneyti Íslendinga hér í 1000 ár og er ekki fyrr en á seinustu 100 árum sem vinnsla á honum dróst verulega saman. Það er talsvert meiri aska í honum hér á landi heldur en erlendis og er því vinnslan á honum erfiðari og kostnaðarsamari. Hér á landi er hægt að finna góðan mó og höfum við gert tilraunir með hann til reykingar. Hins vegar ákváðum við að okkar fyrsta reykta viskí yrði taðreikt þar sem að sá reykur átti einstaklega vel við bragðeinkenni íslenska byggsins. Við munum eflaust búa til móreykta útgáfu af Flóka en hvenær við gefum hana út er ekki endanlega ákveðið.

Hvernig hafa viðbrögðin verið við Flóka?

Við höfum fengið feikilega góð viðbrögð við Flóka, ungmaltið okkar er í dag selt víða í heiminum. 

„A whiskey with unique character. Many whiskies appear similar in character to me. Floki stands out because of its individuality. It bursts with herbs and flavour that you will not find anywhere else. I love this whiskey because of this – its unique character. It should be in your collection because of this very reason. Love it or hate it, you certainly will not mistake it. I love it.“ – Einn af okkar viðskiptavinum að njóta Flóka í Bretlandi

Annars er fólk almennt mjög ánægt með það sem við erum að gera með Flóka, að það sé loksins komið íslenskt viskí á markaðinn, og mjög margir biðu spenntir eftir því að prufa einmöltunginn okkar.

Hvernig mynduði lýsa Flóka. Er hann í stíl við skosk hálandaviskí t.d?

Ef ég þarf að bera það saman þá myndi ég segja að Flóki væri einhverstaðar á milli írsks og skosks hálandaviskí, og að Flóki Young Malt væri örlítið bourbon skotinn með öldrun á nýrri eik.

Hvernig er aðsóknin í verksmiðjutúrana?

Hún fer vel á stað og gestir hafa verið mjög ánægðir, við bjóðum núna upp á daglega túra fyrir hámark 10 manns, við höfum lent í dögum þar sem við höfum þurft að bæta við túrum og höfum mest tekið á móti 130 manns á einum degi.

Eimverk býður alla viskíáhugamenn velkomna í heimsókn. Það er hægt að bóka hjá á netinu en þau taka einnig á móti hópum á öðrum tímum en auglýst er, og hægt er að skipuleggja það með því að senda tölvupóst.

Einmöltungurinn Flóki, fyrsta útgáfan leit dagsins ljós 2017 en hann er þroskaður í endurnýttum tunnum, rétt eins og flest maltviskí. Það sem er ögn öðruvísi er það, að Eimverk svo að segja býr til sínar eigin fornýttu tunnur. Ungmaltið er nefnilega þroskað í nýrri, ferskri eik fenginni frá Speyside Cooperage og er maltviskíið síðan látið liggja á þeim eftir notkun. Eins og komið hefur fram hér á Viskíhorninu, þá eru langflest maltviskí látin þroskast í tunnum sem áður innihéldu viskí (oftast bourbonviskí) eða aðra áfenga drykki svo sem sérrí. Þarna hefur ungmaltið (Flóki Young Malt) eitt legið á þeim ámum sem einmöltungurinn síðan þroskast í.

Viskíhornið kann Eimverki hinar bestu þakkir fyrir að taka sér tíma til að spjalla við okkur.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.