Ailsa Bay

Viskíhornið fór á Ailsa Bay smökkun nýverið og smakkaði þetta óvanalega láglandaviskí.

Það sem er sérlega óvanalegt við það er að það er mjög mikið reykt, svipað reykt og Ardbeg en það er mjög óvenjulegt að viskí frá láglöndunum séu reykt.

Ailsa Bay er framleitt í Girvan verksmiðjunni sem er gígantísk kornviskíverksmiðja og framleiðir vanalega ekki einmöltunga úr potteimurum þar til nú. Reyndar hafa viskínirðir kannski heyrt um Ladyburn viskíið sem var framleitt á árunum 1968-1975 og er afskaplega eftirsóknarvert í dag en það var framleitt á sama stað og Ailsa Bay er núna. Ladyburn var þó verulega ólíkt, enda sígildur, léttur og blómlegur láglendingur.

Girvan verksmiðjan er á vesturströnd láglandanna, við Firth Of Clyde og glittir í Isle Of Arran sé litið í norð-vestur. Nánar hér um skosku landsvæðin.

Eitt er óvanalegt í þroskun Ailsa Bay en það er að það er upphaflega þroskað í mjög smáum búrbontunnum til að byrja með en er síðar í þroskunarferlinu sett í stærri, hefðbundnari búrbontunnur, sem er öfugt við það sem oftast er gert.

Þetta þroskunarferli á að gefa meiri sætleika úr viðnum í bland við allan reykinn, og jú við erum ekki frá því að það virki. Ailsa Bay er skemmtilega sætt, og sérstaklega með viðbættu vatni.

Angan: Reykur og meiri reykur, aska, brunnin tréstöngull og jafnvel beikon en viskíið er ungt svo það örlar einnig á byggi og ferskum eplakeim.

Bragð: Mikill og þykkur reykur, vel steikt, breskt beikon, og það er sætt, eins og ætlunin var. Sírópskenndur sætleiki.

Eftirbragð: Nokkuð eins og þú hafir verið að tyggja á tréstöngli sem hefur logað drykklanga stund. Aggressívur reykur sem loðir við góminn heillengi í bland við þessa sætu sem einkennir viskíið bakvið allan þennan reyk. Það kemur einnig fram töluverður, þungur kryddkeimur í átt við negul, kanil eða eitthvað í þá átt. Margslungið og skemmtilegt viskí sem er ofsalega gaman að smjatta á. Endilega takið góðan tíma með því, ef það er óvinveitt til að byrja með, þá á vinskapur eftir að myndast eftir að hafa leyft því að róast niður í glasinu, sérstaklega ef þið skvettið vatnsdropa út í.

Það er eiginlega síbreytilegt. Eftir drykklanga stund í glasinu (rétta glasinu) breytist það mjög með tímanum.

Við mælum mjög með Ailsa Bay fyrir reykhausa sem vilja prófa eitthvað annað en Laphroaig og Lagavulin.

Ailsa Bay fæst m.a. á vinbud.is og hér


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.