Tamdhu var byggð árið 1896 og það eingöngu með það í huga að búa til viskí til blöndunar, enda voru einmöltungar fremur fátíðir á þessum tíma.
Tíð Tamdhu hefur verið fremur stormasöm og hefur verksmiðjunni verið lokað nokkrum sinnum en hún hefur ávallt risið upp úr öskustónni og aldrei af jafnmiklum krafti og hún gerði árið 2012 er Ian McLeod fyrirtækið keypti hana en þá hafði hún verið lokuð frá árinu 2009. Þá leit dagsins ljós 10 ára Tamdhu sem hafði mikinn sérríkarakter og bjó yfir nánast fullkomnu jafnvægi milli búrbon- og sérrítunna.
Síðan Tamdhu var enduropnuð hafa komið út tvær tegundir af því sem þau kalla ,,batch strength”. Það þýðir að engu vatni er bætt við við átöppun og er viskíið í flöskunni af sama styrkleika og það var í tunnunum.
Batch 2 er sú nýjasta og áskotnaðist Viskíhorninu prufa af því nýverið.
Angan: Það kemur fram hnetukeimur, súkkulaði. Jafnvel svolítið eins og Nói&Síríus með hnetum og rúsínum! Kakó, rúsínur. appelsínubörkur.
Bragð: Sérríáhrifin eru sterk, en ekki of sterk. Mjög gott jafnvægi. Mikill ávöxtur, kokkteilávextir í dós (!), hnetur og þessi dæmigerði rúsínukeimur sem vill oft einkenna sérríþroskuð viskí. Oft og tíðum á það við viskí úr sérríámum að þar komi fram örítill súlfúrkeimur og eru ástæður þess tíundaðar annarsstaðar á Viskíhorninu. Það er nánast enginn brennisteinskeimur hér, sem er vel.
Eftirbragð: Mikill kryddkeimur sem minnir helst á negul, þarna eru rúsínur og vel þroskaðar döðlur. Sætt og langt eftirbragð.
Tamdhu batch strength, og Tamdhu yfir höfuð er stórgott og sennilega fremur vanmetið viskí. Mestmegnis úr sérrítunnum líkt og þekktasta sérríviskíið, Macallan, en á mun viðráðanlegra verði.
Kæri vin, gæti ekki verið þér meira sammála. Fyrstu kynni mín voru Gordon&MacPhail bottling af þessu lífsins vatni hef haft augun opin fyrir því síðan- endist stutt…
Líkar viðLíkar við