Undanfarna áratugi hefur færst mikið í aukana að fólk sækist eftir lífrænt ræktuðum vörum, grænmeti, eggjum og öðru matarkyns.
Hvað með viskí. Getur það verið lífrænt „ræktað”?
Svarið er já, en þau eru alls ekki mörg. Í augnablikinu eru það eingöngu þrjár skoskar verksmiðjur sem framleiða einmöltunga þar sem byggið er lífrænt ræktað.
Þær eru Bruichladdich á Islay og Benromach í Speyside. Þó er það aðeins örlítill angi af framleiðslunni og erfitt getur reynst að nálgast organic viskíin þeirra.
Þriðja verksmiðjan er algerlega spáný og heitir Ncn’ean (nokknían) og hóf framleiðslu í mars sl. og er því ekkert komið í sölu enn, en sá framleiðandi notast eingöngu við lífrænt ræktað bygg og er framleiðslan þeirra öll mjög umhverfisvæn og græn, enda er allt vænt sem vel er grænt.
Síðan má nefna Dá Mhile í Wales en sú verksmiðja opnaði árið 2012 og getur reynst þrautinni þyngra að nálgast viskíin þeirra.
Í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í Chicago er hin nýlega og framsækna Koval verksmiðja en öll þeirra framleiðsla er lífræn. Auk þessara eru til örfáar blöndur úr lífrænt ræktuðu korni, eins og t.a.m. skoska blandan Highland Harvest.
Svo má nefna hinn lítt þekkta, franska einmöltung Vicomte, sem ekki margir hafa gerst svo frægir að væta kverkar með.
Getur viskí verið glútensnautt?
Svarið við því er já. Bygg, rúgur og hveiti inniheldur glúten vissulega, en við eimingarferlið hverfur glútenið og eftir verður eingöngu alkóhól og vatn, svo þeir sem eru með glútenóþol geta drukkið viskí. Allt eimað áfengi er því glútensnautt.
Í Bandaríkjunum er reglur þar sem segir að ekki megi kalla vöru svo sem viskí glútensnauða þar sem upphaflega hráefnið inniheldur glúten jafnvel þó það hverfi við eimingu. Þá hafa margir framleiðendur annars sterks áfengis, sérstaklega vodka, séð sér leik á borði og sett ,,gluten free” merkinguna á sínar vörur, þrátt fyrir að þess þurfi ekki þar sem þær eru glútensnauðar fyrir, til að höfða til þessa sívaxandi markaðar sem vill sitt fæði glútensnautt.
Er viskí ,,vegan”?
Vissulega er allt viskí vegan. Í því er eingöngu vatn, bygg og ger. Rjómalíkjörar svo sem Baileys eru það vissulega ekki.
Er viskí ,,kosher”?
Þessa spurningu ber oft á góma í starfi eiganda Viskíhornsins í Royal Mile Whiskies.
Ekki er allt viskí kosher. Til þess að viskí sé kosher þá þarf það að hafa eingöngu legið á búrbontunnum eða ferskum eikartunnum. Þumalputtareglan er sú að svo lengi sem viskíið er ekki þroskað í vín- sérrí- eða púrtvínstunnum, þá er það kosher.