Scapa

Scapa verksmiðjan er á Orkneyjum og er næst nyrsta viskíverksmiðja Skotlands, á eftir Highland Park sem er ögn norðar.

Scapa var stofnað árið 1885 við Scapa flóa, rétt sunnan Kirkwall, af fyrirtækinu Macfarlane&Townsend en verksmiðjan hefur verið í eigu nokkurra aðila gegnum tíðina. Eigandi hennar í dag er Chivas Brothers (Pernod Ricard).

Scapa hefur staðið í skugga stóra bróður í norðri, Highland Park gegnum tíðina, en eftir að verksmiðjan var öll tekin í gegn og endurnýjuð árið 2004 hefur hróður hennar aukist verulega um gervalla veröld.

Scapa er nokkuð ólíkt öðrum eyjaviskíum því það er algerlega óreykt, mór kemur þar hvergi nálægt sem þýðir að viskíið er létt og ferskt, með sítruskeim sem rímar skemmtilega við sjávarseltuna sem læðir sér inn í viskíið en verksmiðjan er rétt við ströndina.

Í dag kemur Scapa án aldursgreiningar en það er jú til komið vegna skorts á eldra viskíi, semsagt fyrir 12-15 árum síðan var ekki framleitt nóg til að mæta eftirspurn í dag, sem er umfram það sem menn sáu fyrir, fyrir einum til tveimur áratugum síðan. Þetta er vandamál sem margar verksmiðjur glíma við í dag. Það er kannski óþarfi að kalla það vandamál, því viskí þarf ekkert endilega að vera 12 ára til að vera gott. Scapa er gott dæmi um það, það er ungt vissulega en mjög bragðgott og vel þroskað.

Hér áður fyrr var til 14 ára, sem var síðan tekið af markaði fyrir nokkrum árum og 16 ára kom í staðinn. Slík var eftirspurnin eftir því að nú hefur það einnig verið tekið af markaði af ofantöldum orsökum og í dag er enginn aldur tilgreindur.

Kjarninn er Scapa Skiren en auk þess kemur Scapa Glansa, en það er þroskað í tunnum sem áður innihéldu reykt viskí og hefur örlítinn reykjarblæ.

Scapa Skiren angar af hunangi, ferskum ávöxtum svo sem perum, eplum og svo er hnetublær þarna.

Bragðið er í takt við lyktina, hunangssæta, perur, hnetur og sítrusávextir í bland við kryddaðan eikarkeim.

Eftirbragðið er ekki mjög langt, en kryddbragðið af eikinni, vanillan lifir kannski einna lengst.

Verulega skemmtilegt viskí.

Scapa viskí er afar fínlegt og léttleikandi viskí sem ekki margir hafa prófað því verksmiðjan er lítil og framleiðsla verið stopul undanfarna áratugi.

Sítrusávextir og hunang er það einkennir Scapa og gerir þetta viskí alveg tilvalið fyrir hanastél í grillveislunni, eða sem fordrykk ‘aperitivo’ meðan kolin eru að hitna í grillinu! Það er ferskt og rennur vel niður með grillmatnum jafnt sem ávaxtasalatinu. Það er líka á fínu verði í vínbúðum og er tilvalið sem sumargjöf eða til að taka með í bústaðinn.

Fæst hér og einnig í nokkrum helstu Vínbúðum.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.