Highland Park – ‘Warrior’ serían

Orkneyjar eru samofnar víkingatímanum og spiluðu stóra rullu í sögu okkar Íslendinga, og Skandinavíu allri.

Highland Park er önnur tveggja viskíverksmiðja á Orkneyjum, hin er Scapa. Highland Park gerir mikið út á víkingasögu eyjanna og hafa þau verið að framleiða undanfarið tvær víkingaseríur, Valhalla og Warriors.

Warrior serían er eingöngu fáanleg í fríhöfnum og þar eru viskíin nefnd eftir nokkrum hetjum víkingatímans. Þau eru Svein, Einar, Harald, Sigurd, Ragnvald og Thorfinn, í röð eftir verðlagningu.

Ég, Jakob ritstjóri, hef staðið mig að því að grípa Svein nokkrum sinnum þegar ég á leið um fríhöfn en þarna færðu þetta fína viskí á mjög sanngjörnu verði eða um 35 pund lítraflaska. Hönnunin er einnig framúrskarandi þykir mér. Afar vel gert, eins og Highland Park er von og vísa.

Það er mestmegnis úr búrbontunnu en það er eflaust einhver hluti úr sérrítunnu, fremur létt, mjög mikill ávöxtur og svolítið sykursæt vanilla, afar auðdrekkanlegt. Lesið nánar um Svein hér.

Sveinn kemur í 1000cl. flöskum og fæst eingöngu í fríhöfnum, þ.á.m. í Keflavík.


Einar er næstur.

Hann kemur einnig í 1000 sentilítrum og er 40% alkóhól.
Einar aðeins ruddalegri en Sveinn, þyngri og feitari enda örlítið meiri sérríáhrif og ögn meiri reykur.


Ingvar er eingöngu fáanlegur í fríhöfnum í Taívan.

Hann er nautsterkur eða 60.5%, en róast mikið með viðbættu vatni, verður ekki eins viðskotaillur blessaður. Mikil vanilla og sítrus.


Næstur er Harald, sem kemur í 70cl. flöskum og er 40% alkóhól.

Haraldur hárfagri er Íslendingum góðkunnur og er hérna ca. 50/50 úr bórbon- og sérrítunnum. Þyngri en forverarnir og sætari. Þónokkur kryddkeimur. Sá feitasti hingað til. Halli er gómsætur.


Fast á hæla Haralds kemur Sigurd. 43%, 70cl.

Hann er með enn meiri sérríáhrif en forverinn, Haraldur. Nokkuð mikil fylling og sérrísæta, vanilla, rúsínur og krydd og örlítill reykjarblær.


Þá er komið að Ragnvald.

Þá er líka komið að því að tala við bankastjórann, því nú er verðið orðið svolítið hátt.

Kemur í afar haganlega smíðaðri viðaröskju, lítur afar vel út og ekki er innihaldið síðra. Svolítið gamaldags viskí, þykkt, olíkennt og mikið um sig. Rögnvaldur er feitur og pattaralegur. Mikil sérríáhrif, mjög mikil eik sem endar með reykjarsprengingu.

Eins og með aðrar útgáfur í ‘Warrior’ seríunni er engin aldurstilgreining, sem fælir kannski einhverja frá vegna verðsins, en ég get staðfest það að elsta viskíið í Rögnvaldi er gamalt. Bragðið gefur það vel í skyn en hversu gamalt ætla ég ekki að giska á. 44.6%, 70cl.


Síðastur í röðinni er Thorfinn. 45.1%, 70cl.

Ef Rögnvaldur skildi eftir djúpt sár á bankareikningnum, þá rekur Þorfinnur síðasta naglann í kistu hans.

Þorfinnur er sá stærsti, þarna eru mikil sérríáhrif, dálítill reykur, þykk áferð, dökkt súkkulaði, hangikjöt! Þetta er stór og mikil skepna.

Stríðsmennirnir verða semsagt, eðlilega, þyngri og meiri eftir því sem þeir eru dýrari. Sérríáhrifin aukast, þeir verða þyngri og feitari með aldrinum.

Skemmtileg sería frá frábærum framleiðanda, sem hyllir sína eigin sögu með útgáfum sem þessum, sögu sem stendur okkur Íslendingum afar nærri.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.