Kilkerran 12 ára

Mynd: http://www.scottishdelight.com

Kilkerran er í eigu Springbank, en verksmiðjan sjálf heitir GlenGyle og er í Campbeltown á Kintyreskaganum, við vesturströndina, á milli Isle of Islay og Isle of Arran. Nánar um skosku landsvæðin hér. Ákveðið var að nefna viskíið ekki eftir verksmiðjunni því „glen“ er nú til dags frekar tengt Speyside viskíum. Auk þess var eitt sinn til blandað viskí með sama nafni.

Á 19. öld voru hvorki fleiri nér færri en 34 verksmiðjur í Campbeltown þegar mest var en flestar lokuðu þær svo á þeirri 20. og húsakostur þeirra flestra rifinn. GlenGyle lokaði árið 1925 eftir að hafa verið opin síðan 1873. William nokkur Mitchell opnaði hana á sínum tíma, en hann átti einnig Springbank sem er enn í eigu Mitchell fjölskyldunnar.

Eins og fyrr segir, var gríðarmikil viskíframleiðsla í Campbeltown á þessum tíma. Stór ástæða fyrir því var staðsetning bæjarins, en þar er mjög góð höfn. Með tilkomu lestakerfis á meginlandinu, og þar af leiðandi betri samgangna, þá fóru verksmiðjur að spretta upp víða á Speyside svæðinu. Campbeltown verksmiðjurnar margar hverjar lentu í ströggli vegna uppgangs verksmiðjanna í Speyside og sumar fóru þær að reyna að framleiða meira og meira, og gefa því styttri tíma í tunnum, sem kom niður á gæðum viskísins. Fólk fór þá frekar að leita til annarra, nýrra svæða og framleiðenda og viskíframleiðsla í Campbeltown nánast lagðist af. Campbeltown datt úr tísku. Einungis voru tvær verksmiðjur eftir, Springbank og Glen Scotia, sem enn lifa góðu lífi.

Húsnæði GlenGyle var aldrei rifið og var í sífelldri notkun frá lokun viskíframleiðslunnar, m.a. sem félagsheimili og æfingasvæði skotvopnafélags. Húsunum var vel haldið við og þegar húsnæðið var laust kringum árið 2000, ákvað Springbank að endurvekja viskíframleiðslu í þeim.

Vinna við endurreisn GlenGyle hófst árið 2000 og viskíframleiðsla hófst fjórum árum síðar, 2004. Síðan þá hafa komið út reglulega mjög ung viskí svona til að koma einhverju á markað og leyfa fólki að smakka og fylgjast með. Ritstjóri hefur smakkað nánast allar útgáfur frá 2009 ca. og verið mjög hrifinn.

Meiningin var frá upphafi að framleiða létt, ávaxtakennt viskí sem er mjög léttreykt og það er akkúrat það sem það er.

Síðla árs 2016 kom bomban frá þeim, 12 ára Kilkerran. Óhemju gott fyrir peninginn.

Þroskað 70% í búrbontunnu og 30% í sérrí.

Það mætir nefinu með litlum reykjarkeim, byggi, ávexti , sítrus og einnig vanillu.

Springur út á tungunni, græn epli, ferskjur, vanilla og rosalega mildur móreykur, afskaplega vel balanserað. Dálítill viðarkeimur, sérríáhrifin koma vel fram en eins og fyrr segir, jafnvægið er nánast fullkomið. Örlar á sjávarseltu.

Fær toppeinkunn.

Þegar 12 ára Kilkerran kom út var eftirspurnin töluvert mikil, og þegar það spurðist út hversu gríðarlega vel heppnað það væri, jókst hún geysimikið og upplagið seldist upp með það sama. (Fyrir þessum 12 árum síðan var ekki framleitt alveg nógu mikið til að mæta eftirspurninni í dag, sem er mun meiri en menn sáu fyrir í byrjun aldarinnar). Orðrómurinn segir að næsta upplag komi snemma sumars 2017.

Í apríl kom út 8 ára „cask strength“ og þar er sömu sögu að segja. Eftirspurnin var gríðarleg enda afar vel heppnað viskí.

„Algert möst“ að prófa. Spurning hvort Maltviskífélagið eigi eitthvað eftir.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.