Algengt er að fá sér sérrí eða léttvín með eftirréttum en margir horfa framhjá því eða átta sig ekki á því að viskí hentar einnig mjög vel sem eftirrétta- og/eða súkkulaðipörun. Viskí er sterkt áfengi vissulega, 40% hið minnsta. Ef það þykir rífa örlítið í, er um að gera að bæta nokkrum vatnsdropum út í.
Fyrst, tæknilegu atriðin:
- Fáið yður sopa af viskíinu, veltu því um í munninum dágóða stund og kyngdu svo.
- Settu lítinn mola af súkkulaðinu á tunguna, láttu bráðna aðeins yfir hana og smjattaðu síðan vel á því.
- Að lokum, annar sopi af viskíinu, minni en í upphafi og láttu leika lausum hala í munninum, kyngdu og andaðu létt að þér með munninn lítillega opinn.
Þá er það pörunin.
Létt viskí eins og t.d. Glenfiddich, Balblair, Glenmorangie passa mjög vel með dekkra súkkulaði því léttleikinn í viskíunum og þessi litla sæta sem er í þeim, mýkir súkkulaðið, dregur úr beiska bragðinu og losar um svo úr verður eitthvað undursamlegt.
Létt viskí á borð við þessi ofantöldu passa vel með ýmiskonar konfektmolum, prófið t.a.m. Glenfiddich með súkkulaði- og karamellumola.
Í matar- og drykkjarpörun þarf oft að hafa í huga að brögðin verða að vinna vel saman, þau séu nokkuð ólík því ef þau eru of lík getur myndast milli þeirra metingur sem endar bara með slagsmálum og ósköpum.
Þó eru undantekningar vissulega. Velunnari Viskíhornsins benti á t.d. Ledaig 10 og súkkulaði með sjávarsalti. Seltan í þeim báðum vinnur vel saman. Saltað súkkulaði virkar einnig einstaklega vel með Highland Park.
Viskí parast einnig afar vel með ostum. Reykt viskí, eins og t.d. Lagavulin 16 er undursamlegt með vel mygluðum Roquefort. Fáið ykkur bita af ostinum, smyrjið honum vel upp í góminn og takið svo nettan sopa af viskíinu og finnið hvað gerist. Fullkomin pörun.
Ritstjóri hefur einnig unun af Talisker, þá kannski helst Storm með mygluosti. Talisker og reyktur lax er önnur pörun sem er alger unun. Seltan og netti reykjarblærinn í Talisker vinnur afar vel með laxinum.
Með bragðminni ostum, brie, cheddar o.þ.h. mælum við með léttara, ávaxtakenndara viskíi, í átt við þau sem nefnd voru að ofan, Glenfiddich, Glenmorangie eða Balblair. Balvenie 17 ára er ögn þyngra og sætara og ef þú ert á þeim buxunum, þá virkar það mjög vel með slíkum ostum.
Að reyktum viskíum. Mikið reykt viskí eins og t.d. Ardbeg 10, jafnvel Laphroaig og hvítt súkkulaði virkar afar vel. Það verður alger vanillusprengja úr þeirri samsetningu. Það hljómar kannski einkennilega, eins og reykurinn ætti ekki að virka með hvítu súkkulaði, en viti menn, hann gerir það vissulega.
Dökkt súkkulaði, 70%, á vel við viskí og mælum við þá sérstaklega með Springbank. 10 ára Springbank rímar einstaklega vel við dökkt súkkulaði.
Svo er ein bomba svona í lokin sem við skorum á ykkur að prófa. Caol Ila 12 og harðfiskur!
Njótið.