Koval er fyrsti viskíframleiðandinn í Chicago síðan á bannárunum, en verksmiðjan opnaði árið 2008.
Koval er framsækin verksmiðja sem hefur verið að prófa sig áfram með nýja hluti undanfarið, eins og t.d. að gera viskí úr hirsi eða milletkorni.
Sú tegund korns vex mest á Indlandi, í Afríku og lítillega í Bandaríkjunum og hefur gegnum aldirnar verið notuð til að búa til ýmsa áfenga drykki. Koval er þó fyrsta viskíið sem er eingöngu framleitt úr milletkorni.
Millet er harðgert korn og víst svolítið erfitt meðhöndlunar við eimingu, sem útskýrir hvers vegna það hefur ekki verið notað áður sem eina korntegundin í viskígerð auk þess sem það vex ekki mikið á hefðbundum viskíframleiðslusvæðum. Spurning hvort Amrut eða Paul John fari að prófa sig áfram með þetta.
Kornið er fengið af býli í mið-vestur Bandaríkjunum og hefur viskíið legið á bandarískum eikartunnum.
Anganin er mikil vanilla, svolítið kryddaður mintukeimur. Korn. Mjög aðlaðandi lykt, kryddkeimurinn minnir svolítið á ilmvatn eða rakspíra. Stór og mikil angan þrátt fyrir að þetta sé frekar ungt viskí.
Bragðið er svolítið öðruvísi en lyktin gefur til kynna. Það er anískeimur þarna og svolítill pappírsblær, bylgjupappi og/eða gamlar bækur, bókasafn. Það hljómar kannski ekkert allt of vel, en þetta er mjög viðkunnanlegt bragð. Svolítið þykk og olíukennd áferð.
Eftirbragðið er miðlungslangt og þessi anískeimur loðir svolítið við.
Hið fínasta viskí, öðruvísi og spennandi. Mjög skemmtilegt að prófa.
Koval Millet er glútenfrítt og lífrænt ræktað. Það er líka “kosher” hafi einhver áhuga á því, og það fæst t.d. hér