Að lykta af viskíi

Lyktin er afar stór partur af því að smakka viskí.

Mjög oft einblínir fólk að mestu á bragðið, hvernig viskíið bragðast á tungunni, dembir sér oft og tíðum beint í það að bragða viskíið án þess nokkurn tímann að lykta almennilega af því.

Nefið skynjar mun fleiri mismunandi lyktir en munnurinn skynjar brögð. Oftast er talað um 4 mismunandi brögð sem manneskjan skynjar; sætt, súrt, salt og beiskt. Nefið á að skynja mun fleiri mismunandi tegundir lykta, og er því mjög mikilvægt í því skemmtilega ferli sem viskísmökkun er.

Þegar við hjá Viskíhorninu komum saman og smökkum viskí þá eyðum við oft heillöngum tíma bara að lykta af því, reyna að greina hin mörgu mismunandi blæbrigði sem geta verið í einmöltungsviskíi. Svo, þegar því verkefni er lokið, þá er spennandi að smakka viskíið. Oft kemur það manni mjög á óvart eftir að hafa eytt löngum tíma í að þefa af því, því bragðið er oft töluvert öðruvísi en maður bjóst við.

Síðan er líka skemmtilegt að setja sama viskíið í tvö glös. Lykta af öðru beint af kúnni, og hinu með dropa af vatni. Viskí breytist nefnilega heilmikið með viðbættu vatni. Flest til hins betra. Vatnið losar um viskíið, opnar það, og í mörgum tilfellum verður það sætara. Fer eftir tegundum vissulega. Það verða efnafræðilegar breytingar í vatni lífsins þegar vatni er bætt út í það sem hafa töluverð áhrif á lokaútkomuna. Að smakka sama viskíið hlið við hlið, með og án vatns er afar forvitnilegt og eitthvað sem við sannarlega mælum með að gera. Og ef þið hafið tíma, þá er kannski ráð að skvetta í þriðja glasið og geyma það lengur. Sjá hvernig það breytist er það “andar”.

Hvernig er svo best að smakka viskí?

Glasið skiptir öllu máli. Best er að hafa það fremur lítið, belgmikið um miðjuna sem svo þrengist þegar ofar dregur. Glencairn glösin eru best til þess at arna, að okkar mati.

Lyktið af glasinu úr smá fjarlægð, snúið glasinu og látið viskíið þeytast aðeins um ofan í. Lyktið aftur, enn úr kannski 10-20 sentimetra fjarlægð og finnið hvernig lyktin skýst á móti ykkur, lóðrétt beint upp úr glasinu. Ekki troða nefinu ofan í til að byrja með. Leggið nefið að toppi glassins og andið djúpt. Varlega, sérstaklega af þið eruð með “cask strength” viskí sem oft er að styrkleika upp á 55-60 prósent. Sé nebbanum troðið ofan í glas með svo sterku áfengi, þá getur komið upp brunatilfinning í nösunum sem skemmir upplifunina. Eitt trix er svolítið skemmtilegt. Það er að setja smá viskí á handarbakið og nudda þar til það þornar. Lykta svo af handarbakinu. Mælum með að þið prófið það.

Svo er bara að lykta og lykta, reyna að sjá fyrir sér hvað það er sem lyktin minnir þig á. Eru það epli? Ávextir? Hunang? Karamella? Gras? Mold? Mór? Beikon? Reykur? Hvað er það? Og munum að engir tveir upplifa viskí 100% nákvæmlega eins. Það er gaman að smakka viskí með öðrum því fólk upplifir það oftast ekki eins. Það sem einum finnst, finnst öðrum ekki svo allir hafa rétt fyrir sér.

Dæmi: Mér finnst eitt einkenna ungra viskía vera bragð af grænum eplum. Hvernig áttu að útskýra það fyrir einhverjum sem hefur ekki smakkað græn epli og hvernig á hann þá að finna það bragð? Vissulega hafa flestir sennilega smakkað græn epli, enda var þetta nú bara svona smá dæmisaga til að leggja áherslu á málið.

Eftir að hafa nusað af dropanum drykklanga (!) stund er kominn tími á að smakka herlegheitin. Munið eftir því hvað lyktin minnti ykkur á. Berið svo saman við það sem bragðskynið er að segja ykkur. Oft er þar töluverður mismunur og kemur á óvart. Ég, ristjóri, hef oft smakkað viskí sem mér fannst hundvont þó svo að lyktin gæfi annað í skyn og öfugt. Viskí sem lyktar afar óaðlaðandi getur einnig smakkast unaðslega.

Svo er bara að njóta … í hæfilegu magni vissulega!


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.