Eitt vinsælasta viskíhanastélið er Old Fashioned, eða ‘Gamaldags’ en uppistaðan í þeim göruga drykk er vanalega búrbóni eða rúgviskí. Old Fashioned hefur vissulega gengið gegnum endurnýjun lífdaga þökk sé Mad Men þáttunum, en Don Draper sést iðulega með Old Fashioned við hönd.
Sígilda uppskriftin er eitthvað á þessa leið:
– 50ml búrbóni eða rúgviskí
– Einn sykurmoli eða teskeið af sykri
– Angostura bitter, 2-3 skvettur
– Appelsínubörkur, skerið ca 1cm breiðan börk hringinn í kringum ávöxtinn
– Ísmolar
– Skvetta af sódavatni, en það er val. Sumir nota það, aðrir ekki
– Kirsuber til skrauts
Hellið bitternum í skál ásamt sykrinum og myljið hann, sérstaklega ef dökkur sykur er notaður en sykurvalið er persónubundið. Mæli með grófum, dökkum sykri og að mylja hann í skál.
(Sé fínn, hvítur sykur notaður þá bara smellið honum beint í glasið og dreypið bitternum yfir.)
Hellið blöndunni síðan í glas, bætið viskíinu út í og hrærið á meðan.
Ekki hella öllu viskíinu í glasið strax, gerið það í litlum skömmtum, bætið litlum ísmola í eftir hvern skammt og hrærið.
Brjótið síðan appelsínubörkinn saman einu sinni og kreistið til að opna hann og setjið hann svo í glasið. Olían og safinn úr berkinum upphefja bragðið af viskíinu og bitternum.
Vissulega er hægt að nota skoskt viskí en flestir nota búrbóna eða rúgviskí. Við ætlum sérstaklega að mæla með rúgviskí því það er með ögn meiri kryddkeim, rífur betur í. Bulleit Rye er tilvalið, og fæst í ríkinu.
Sé búrbóni notaður er til dæmis Buffalo Trace gott val, Bulleit Bourbon og Knob Creek myndu líka standa sig vel.