Einn mikilvægasti þátturinn í framleiðslu einmöltunga er tunnan sem áfengið er látið þroskast í.
Skosk viskí þurfa að vera í eikartunnu í 3 ár hið minnsta, en flest eru þá látin þroskast í 12-15 ár eða svo.
Tunnan hefur gríðarleg áhrif á lokaútkomuna, upphefur bragð hráefnanna sem notuð voru við framleiðsluna, gerir viskíið mýkra og margslungnara auk þess að gefa því lit, en “viskí” beint af eimaranum er alltaf tært sem vatn.
Hefð er fyrir því í Skotlandi að nota endurunnar tunnur við þroskunina og í flestum tilvikum er notast við gamlar búrbontunnur frá Bandaríkjunum. Þegar búrbon er þroskað má nefnilega eingöngu notast við ferskar eikartunnur, og að notkun lokinni er megnið sent til Skotlands.
Auk búrbontunna er líka notast mikið við sérrítunnur frá Spáni og upp á síðkastið hafa margir prófað sig áfram með allskonar mismunandi tunnur. Hér er listi yfir helstu tunnutegundir og hvað þær gera við viskíið.
Fyrrum notkun: Tegund Bragð Litur
Búrbon | Amerískt viskí | Vanilla, sæta, karamella. | Gyllt |
Búrgúndí | Rauðvín | Ávöxtur, dálítið sætt, stundum þurrt | dökkrautt |
Madeira | Styrkt vín | Krydd, ávöxtur, sætt. | Dökkt, rafgult |
Púrtvín | Styrkt vín | Sætt, þurrkaðir ávextir, krydd | Rauður blær |
Oloroso | Sérrí | Þungt, dökkt, hnetur, dökkir þroskaðir ávetir | Rautt, rafgult |
Pedro Ximenez (PX) | Sérrí | Mjög sætt, dökkir ávextir, rúsínur, síróp | Rafgult |
Fino | Sérrí | Viður, ávextir, þurrt. | Ljósgult |
Manzanilla | Sérrí | Söltugt, þurrt, ferskt, smá ávöxtur. | Ljósgult |
Amontillado | Sérrí | Sætt, hnetur ferskt, sýra. | Rafgult |
Palo Cortado | Sérrí | Þungt, sætt, krydd, ávöxtur | Brúnleitt |
Sauternes | Sætt hvítvín | Mikil sæta, ferskir ávextir, sýra. | Rafgult |
Bordeaux | Rauðvín | Mikill ávaxtekeimur,rauð vínber | Rauðleitt |
Tokaji | Ungverskt hv.vín | Léttir ávextir, mikil sæta | Ljósgult |
Ruby Púrtvín | Styrkt vín | Dökkir, bragðmiklir ávextir | Rauðleitt |
Barolo | Ítalskt rauðvín | Tannín, þurrt, ávextir, þungt | Rautt |
Chardonnay | Hvítvín | Létt, ferskt, framandi ávextir, sýra. | Fölgult |
Romm (hvítt) | Sterkt áfengi | Sæta, vanilla, framandi ávextir | Fölgult |
Romm (dökkt) | Sterkt áfengi | Mjög sætt, síróp, vanilla, karamella. | Rafgult |
Það sem áður var í tunnunni hefur mjög mikil áhrif á lokaútkomuna, en það er ekki eini áhrifavaldurinn.
Stærð tunnanna hefur einnig áhrif. Því minni sem tunnan er, því meiri snerting við eikina.
Amerískar búrbontunnur eru u.þ.b. 200 lítrar, kvarttunnur (quarter casks) eru um 80-100 lítrar, víntunnur um 220-300 ltr og svo geta sérrí- og Madeiratunnur verið allt að 700 lítrum, sem er hámarksstærðin.
Annar áhrifavaldur eru hvar eikin sem notuð var í tunnurnar, óx. Hvort það var í Bandaríkjunum eða í Evrópu. Eikin vex hraðar í Bandaríkjunum og eru tunnurnar þar ögn ódýrari þar af leiðandi, og hún gefur búrboninu sitt sæta bragð á meðan eik frá Evrópu á það til að gefa beiskara, þurrara bragð.
Tunnurnar eru einnig ristaðar að innan, mismikið eftir því hvaða áhrif hún á að hafa á viskíið. Yfirborð eikarinnar brotnar upp (minnir á krókódílaskinn) sem opnar hana og opnar sykurinn í viðnum sem þá gefur meira karamellu- og vanillubragð.
Tunnurnar eru notaðar margoft, nema vissulega við framleiðslu búrbons. Því oftar sem tunnan er notuð, því minna bragð fer hún að gefa af sér. Því eru tunnur sem hafa verið notaðar margoft endurlífgaðar, þ.e.a.s. skafnar að innan, efsta lagið er skafið af og þær svo ristaðar að innan á ný.
Þess má geta að regluverkið varðandi tunnur sem viskí er þroskað var víkkað ögn fyrr á árinu 2019. Það hefur alltaf verið nokkuð strangt og er það enn, en það var losað ögn um hömlurnar og nú má til að mynda þroska viskí calvados og tekílatunnum, sem ekki mátti áður. Fleiri tegundir og magn tunna í boði og nýbreytni á markaðnum, sem er hið besta mál.
Scotch Whisky Association (SWA) hefur hingað til talið að t.d. tekíla- og calvadostunnur breyti bragði skosks viskís það mikið að bragðið rúmist ekki innan þess ramma sem skoskt viskíbragð á að rúmast.
Skoskt viskí má ekki, enn sem komið er vera þroskað í tunnum sem áður innihéldu áfengi úr steinávöxtum, svo sem kirsuberjum eða plómum af sömu ástæðu og auk þess má ekki, eða a.m.k. litið grafalvarlegu hornauga ef það er þroskað í tunnum sem innihéldu áfengi sem vanalega fer ekki í tunnur, svo sem gin.