Sumir drekka viskíið sitt hreint, eða dræ eins og oft er sagt. Í Bretlandi er talað um að drekka það „neat“. Sumir drekka það með klaka. Aðrir drekka það með viðbættu vatni. Oft fetta menn sig og bretta þegar maður nefnir að gott sé að bæta vatni út í tiltekin viskí. Þeir segja það helgispjöll og berja sér á brjóst óafvitandi þess að viskíin sem þeir hafa drukkið gegnum tíðina hafa langflest innihaldið viðbætt vatn. Staðreyndin er sú að flest viskí innihalda viðbætt vatn (vatninu er bætt í við átöppun á flöskur). Náttúrulegur styrkleiki viskís er, eftir aldri og öðrum þáttum, vanalega 50-70 prósent. Því eru nánast öll viskí sem eru ca. 40-50 prósent, vatnsblönduð. Þó eru vissulega til á stangli, viskí sem eru „cask strength“, en þó bara rúm 40% en þá eru þau vanalega afar gömul. Skosk viskí tapa alkóhóli við geymslu/þroskun.
Við hjá Viskíhorninu drekkum viskí aldrei með klaka, finnst klakinn/kælingin algerlega steindrepa viskíið. En yfirleitt er fínt að bæta vatni (við stofuhita) út í, bara til að sjá og finna muninn. Sum viskí taka vatni mjög vel og verða enn betri, sum ekki. Það verða efnabreytingar í viskíinu þegar vatni er bætt í sem veldur því að sum opnast og um þau losnar, þau lifna við. Það er þó ekki algilt, en oft verða þau bragðbetri með bara örfáaum dropum af vatni. Við hvetjum alla sem eru að drekka viskí af alvöru til að prófa að setja nokkra dropa af vatni út í glasið, ekki of mikið…ekki drekkja viskíinu, bara til að finna muninn. Það eru engin helgispjöll. Viskí sem eru átöppuð á náttúrulegum styrkleika, þ.e.a.s. án viðbætts vatns taka oft smá dropa afar vel. Auk þess er kosturinn sá að maður getur stjórnað styrk viskíisins frekar, ramminn er víðari.
Vatn er gott! Sérstaklega íslenskt!