Japan

masataka
Mynd: BBC

Japanir hafa verið að gera stórgóða hluti í viskíheiminum undanfarið. Þar hafa verið framleidd viskí síðan snemma á 3. áratug síðustu aldar. Maður að nafni Masataka Taketsuru fékk þá flugu í höfuðið að huggulegt væri að bregða sér til Skotlands og læra viskígerð. Þetta var frostaveturinn mikla 1918, þó svo frostið hafi sennilega ekki verið mjög harkalegt í Japan þá, ögn harðara í Skotlandi kannski. Hvað um það, kauði fór til Skotlands og lærði lyfjafræði og viskígerð þar í landi. Hann lærði sitt fag í Longmorn-verksmiðjunni í Speyside og Hazelburn í Campbeltown á Mull of Kintyre, skaga sem vinur vor McCartney gerði frægan í slagara einum. Taketsuru var kominn af fjölskyldu sem hafði áratugum saman framleitt Sakí, sem er hefðbundið japanskt hrísgrjónavín sem er framleitt á mjög svipaðan hátt og viskí, bara úr annarskonar hráefni.

Hann var þar við nám og störf í nokkur ár og drakk í sig (bókstaflega) kunnáttu Skotanna. Árið 1920 sneri kauði aftur til heimahaganna í Japan og starfaði við viskígerð þar í nokkur ár hjá Suntory, en það var ekki fyrr en árið 1934 sem hann stofnaði sína eigin viskíverksmiðju, sem hlaut nafnið Nikka. Fyrirtækið var stofnað á Hokkaido vegna þess að herra Taketsuru fannst sú staðsetning minna sig hvað mest á hálönd Skotlands og því sérlega vel til fallin til framleiðslu viskís, þar sem Taketsuru ákvað að gera viskíið sitt á nákvæmlega sama hátt og hann hafði lært af lærimeisturum sínum í Skotlandi. Japönsk viskí hafa verð framleidd á sama hátt og skosk allar götur síðan téður Taketsuru nam þessa listgrein og flutti yfir til heimahaga sinna á fyrrihluta síðustu aldar.

Í dag framleiðir Nikka nokkrar mismunandi tegundir. Þar ber helst að nefna þrjú mismunandi Taketsuru, nefnd eftir meistaranum sjálfum, sem eru blönduð maltvískí, óaldursgreint, 17 ára og 21 árs, og einmöltungana Yoichi og Miyagykio. Taketsuru viskí eru reyndar því sem næst ófáanleg í dag vegna gríðarlegrar eftirspurnar eftir japönskum viskíum. Yoichi og Miyagykio með aldurstilgreiningu eru ekki í framleiðslu eins og er vegna skorts á öldruðu viskíi í þeirra vöruhúsum.

Í Japan eru tveir viskírisar. Annar er téður Nikka, hinn er Suntory sem framleiðir Yamazaki, Hakushu, Hibiki blönduna og kornviskíið Chita. Suntory var stofnað ögn fyrr en Nikka, en það var Taketsuru sem kom með þekkinguna til Japan og undir handleiðslu hans hóf Suntory að framleiða viskí í massavís. Því má segja að Hr. Taketsuru sé aleinn og sjálfur ábyrgur fyrir viskíframleiðslu Japana eins og hún þekkist í dag.

Í dag framleiðir Suntory stórgóð viskí. Yamazaki 12 ára er til að mynda frábært og stendur skoskum jafnöldrum síst að baki, en eins og ég nefndi að ofan, þá er eftirspurn eftir japönsku viskíi nú til dags meiri en framboðið svo að það er gríðarlega erfitt að nálgast japanska dropann og þá sérstaklega Yamazaki og Hibiki.

Það má rekja til þess að fyrir nokkrum árum þá var Yamazaki sherry cask valið besta viskí veraldar í viskíbíblíunni hans Jim Murray.

Skálum fyrir hr. Masataka Taketsuru. Hann á það skilið karlanginn.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.