Grundvallaratriði til að hafa í huga
Það eru til gríðarlega mörg mismunandi viskí og því getur verið erfitt að byrja að fóta sig. Til að mynda eru um 100 (og auk þess um 20 í startholunum!) verksmiðjur í Skotlandi sem framleiða einmöltunga og hver og ein gerir nokkrar mismunandi tegundir auk allra blönduðu viskíanna. Hvar í ósköpunum er best að byrja?
- Áður en menn demba sér út í djúpu laugina og kannski fjárfesta í flösku sem kostar töluverðan pening eru nokkrir hlutir sem er gott að hafa í huga og kynna sér fyrst. Það eru jú til ógrynni af mismunandi viskíum sem öll bragðast á mismunandi hátt. Það er einmitt það sem er svo heillandi við lífsins vatn, þetta er fjölhæfasta áfengi sem völ er á, litrófið er svo stórt og leiðinlegt að lenda í því að kaupa flösku sem maður er óánægður með.
- Það er um að gera að lesa sig til, lesa fræðslusíður, bækur, bloggsíður og/eða tímarit um viskí. Kynna sér muninn á svæðunum, því hann getur verið gríðarlegur. Viskí frá Islay eru til að mynda gríðarlega frábrugðin viskíum frá Láglöndunum, himinn og haf þar á milli, bókstaflega. Svo er skemmtilegra að vita eitthvað um sögu drykkjarins sem þú ert með í glasinu, hvaðan hann kemur o.s.frv. þegar þú ert að smakka. Lestu hér um muninn milli landsvæða.
- Margir barir á Íslandi eru farnir að bjóða upp á gott úrval af viskíi þar sem hægt er að smakka sig til. Síðan er viskí líka drykkur sem á að njóta í hóp, og um að gera að koma sér í samband við reyndari viskímenn, koma sér í félagsskap, fara á smakkanir og kynningar.
- Við mælum hiklaust með því að bera á sér litla vasabók og hripa niður punkta um leið og visikíið er smakkað. Á hvað minnir það þig? Er það ávaxtakennt og þá hvernig ávöxtur? Ferskur eins og perur? Epli? Eða eitthvað þyngra eins og rúsínur, sem er oft einkenni viskía sem hafa staldrað lengi við í sérrítunnum. Vanilla? Er það reykt? Skrifa allt svona niður, því það bæði hjálpar manni að muna eftir tilteknum viskíum og jú ef maður gleymir, sem getur gerst, þá getur maður flett því upp sem manni fannst.
- Smakkaðu viskíið eitt og sér fyrst. Prófaðu svo að bæta nokkrum dropum af vatni út í. Smakkaðu aftur, og finndu muninn. Ekki gleyma að lykta.
- Málið er bara að þukla sig áfram, prófa nýtt og vera viðbúinn því að finnast ekki allt viskí gott því þau eru svo yndislega mismunandi. Það að smakka vont viskí getur reyndar verið alveg jafn mikilvægt og að smakka gott viskí því það mun hjálpa þér að finna þinn stíl.
- Og munið, rétta glasið skiptir höfuðmáli. Meira um viskíglös hér.