Eins og þeir sem velkjast um í veröld skoskra einmöltunga vita, þá eru einungis þrjár starfandi verksmiðjur eftir í Láglöndunum, þ.e.a.s. í suður Skotlandi (ímyndið ykkur línu milli Edinborgar og Glasborgar, þá er það nokkurn veginn svæðið sem liggur sunnan þeirrar línu. (Auchentoshan dettur reyndar inn ögn ofan línunnar)). Þá er ég einungis að tala um verksmiðjur sem framleiða einmöltunga. Þar eru líka nokkrar verksmiðjur sem framleiða eingöngu „grainwhisky“ (kornviskí) sem eru vanalega send hingað og þangað í hin og þessi blönduðu viskí. Þar er reyndar líka nýleg verksmiðja sem heitir Daftmill, en virknin virðist lítil þar á bæ, a.m.k. eins og er.
Í gamla daga voru þar mun fleiri verksmiðjur sem nú hefur verið lokað, eins og t.a.m. Rosebank (orðrómar um enduropnun hennar reyndar poppa upp reglulega en aldrei gerist neitt) og St. Magdalene, sem var á tímabili líka þekkt undir nafninu Linlithgow, eftir bænum sem hún stóð í. Rosebank og St.Magdalene eru verksmiðjur sem sárt er saknað. Ég hef verið svo heppinn að smakka all nokkrar tegundur frá báðum verksmiðjum og hafa þær verið algerlega framúrskarandi. St.Magga lokaði 1983 (1983 var slæmt ár í viskíbransanum, margar lögðu upp laupana þá) og Rosebank 10 árum síðar. Starfandi verksmiðjur Láglandanna í dag eru Auchentoshan sem er rétt við Glasgow, Glenkinchie, sem er oft kallað Edinborgarviskíið og svo Bladnoch sem er lítil verksmiðja alveg syðst í landi Skota.
Einkenni Láglandamöltunga dagsins í dag eru almennt grösugur, léttur, ferskur og blómlegur keimur, algerlega óreykt og þrí-eimað, rétt eins og frændurnir á Írlandi haga sér. Skosk viskí eru vanalega tví-eimuð. Auchentoshan hefur kannski helst hnikað frá þessari hefð með 12 ára og Three Wood útgáfunum sínum. Vissulega þríeimuð en mun þyngri, sætari og kryddaðri en gengur og gerist meðal láglandamöltunga enda þroskuð í sérrítunnum, Three Wood afar dökkt og með mikil sérríáhrif úr bæði Oloroso og Pedro Ximenez sérrítunnum. Three Wood nafnið vísar til þess, það er úr þremur tegundum tunna. Búrbontunnu, Oloroso tunnu og PX tunnu.
Hvað um það, tilgangur þessa pistils er að nefna nýja verksmiðju sem er svona sirkabát að fara að eima. Annandale er reyndar ekki ný verksmiðja. Þarna var viskíverksmiðja frá árinu 1830 og þangað til henni var lokað árið 1924. Johnnie Walker fyrirtækið átti hana frá árinu 1893 og notaði til að búa til reykt viskí í blöndurnar sínar. Johnnie Walker hefur nefnileg alltaf notað dass af reyktu viskíi í sínar blöndur. Á þessum tíma voru reyktu viskíin aðallega frá Islay, eins og reyndar enn þann dag í dag, þó svo fleiri og fleiri verksmiðjur á meginlandiu séu að gera reykt í dag til hliðar við sín vanalegu viskí. Í þá daga var ansi erfitt, tímafrekt og um fram allt, dýrt að flytja viskí alla leið úr rassgati frá Islay til að blanda uppi á meginlandinu. Því var gamla Annandale úr takti við flestar aðrar Láglandaverksmiðjur, gerandi reykt Láglandaviskí.
Nýir eigendur keyptu landið og gömlu verksmiðjuna árið 2007 og hafa staðið í gríðarlegri vinnu við uppgerð á gömlu byggingunum síðan. Eimingargræjurnar eru loks komnar á sinn stað og loks er eitthvað að fara að gerast. Þau segjast ætla að halda í hefð Annandale og gera reykt Láglandaviskí í takt við gamla tímann en einnig til hliðar ætla þau að gera óreykt, týpískt viskí fyrir svæðið eins og tíðkast í dag. Spennandi að smakka….allt of langt þangað til bara!