Diageo smökkun, sérútgáfur 2012

Diageo er fyrirtæki sem á gríðarmargar viskíverksmiðjur í Skotlandi sem og má segja aðra hverja áfengistegund í heiminum. Diageo er stærsti eigandi áfengisfyrirtækja veraldar sem er svo sem ekki eitthvað sem ég er hrifinn af, svona stórsteypur þar sem ég styð frekar litla manninn, en Diageo mega eiga það að þeir eiga ansi góðar viskíverkmiðjur. En að eiga svona mikla markaðshlutdeild er kannski ekki af hinu góða. Viskíverksmiðjur í eigu Diageo eru:

Auchroisk, Benrinnes, Blair Athol, Caol Ila, Cardhu, Clynelish, Cragganmore, Dailuaine, Dalwhinnie, Dufftown,  Glendullan, GlenElgin, Glenkinchie, Glenlossie, GlenOrd, GlenSpey, Inchgower, Knockando, Lagavulin, Linkwood, Mannochmore, Mortlach, Oban, Royal Lochnagar, Strathmill, Talisker, Teaninich og hin írska Bushmills. Þeir eiga einnig útgáfuréttinn á nokkrum lokuðum verksmiðjum eins og Port Ellen, Banff, Dallas Dhu, Brora, Pittyvaich, Rosebank og St. Magdalene svo eitthvað sé nefnt.

Sumar þessara verksmiðja eru minna þekktar en aðrar en það er vegna þess að mest af viskíum sem framleidd eru þar eru sjaldan átöppuð sem einmöltungar, heldur er skellt í blöndur í eigu fyrirtækisins, svo sem Johnnie Walker. Ég er ekki hrifinn af að eitt fyrirtæki sé með svona gríðarlega mikla markaðshlutdeild eins og ég sagði, en Diageo má eiga það að þeir hafa metnað fyrir sínum einmöltungum og eiga andskoti góðar verksmiðjur eins og eitt minna uppáhalda, Caol Ila. Auk þess eru þarna stórgóð viskí eins og Lagavulin, Talisker og Clynelish til að nefna nokkur.

Ástæða þess að ég kaus að fjalla aðeins um þessi viskí er sú að í október á hverju ári gefur Diageo út nýjar útgáfur af nokkrum viskíum í þeirra eigu, oft frá lokuðum verksmiðjum, oftast óþynnt og oftast frekar gamlir eintunnungar.

diageo_2012

Bokkurnar sem voru í boði eru eftirfarandi:

Brora, 32ja ára úr enduráfylltri bandarískri búrbontunnu og spánskri sérrítunnu. 54.7%

Caol Ila 12 ára, óreykt úr búrbontunnu. 64% (nýr árgangur gefinn út árlega)

Knockando 25 ára (1985-2010) úr spánskri sérrítunnu. 43%

Lagavulin 12 ára (átappað 2011). Enduráfyllt búrbontunna. 57.5% (nýr árgangur árlega)

Port Dundas 20 ára (1990-2010). Kornviskí úr þrenns konar tunnum, endurfylltri sérrítunnu, nýrri sérrítunnu og nýrri búrbontunnu) 57.4% Einungis 1920 flöskur til.

Port Ellen 32 ára (1978-2010) (nýr árgangur árlega). Endurfyllt búrbontunna. 53.9% (nýr árgangur árlega)

Rosebank 21s árs (1990-2011). Úr endurfylltri bandrarískri og spánskri)

Brora verksmiðjunni var lokað árið 1983 og eru viskí þaðan afar dýr og eftirsóknarverð. Ég hef ekki smakkað margar Brorur gegnum tíðina, þetta var sennilega mín önnur Brora. Auðveldlega sigurverari smökkunarinnar. Með betri viskíum sem ég hef smakkað. Nettur reykur, nokkuð milt, ferskt, ávaxta- og mintukennt. Langt, heitt eftirbragð. Óhemju margslungið, nánast fullt hús. 97

Caol Ila verksmiðjan er enn í gangi  og þó hún sé stærsta verksmiðjan á Islay, er hún tiltölulega lítt þekkt. Ástæða stærðar hennar er sú að megnið af framleiðslunni fer í Johnnie Walker. Einmöltungarnir eru þó stórfenglegir, og flestir töluvert reyktir. Þetta tiltekna afbrigði af Caol Ila er þó „unpeated“, semsagt óreykt. Reykjarbragðið kemur vanalega úr mónum sem notaður er sem eldsneyti þegar byggið er þurrkað, þar með er samasemmerki milli reykjar og mórs eins og ég hef komið að í annarri færslu. Caol Ila er ein af mínum uppáhaldsverksmiðjum og hef ég aldrei smakkað slæma bokku þaðan. Þessi eru þó óvanaleg að því leyti að hún er óreykt eins og ég sagði. Caol Ila hefur það orð á sér að vera, þrátt fyrir allan reykinn, töluvert létt, ávaxtakennt og ferskt og frekar flókið. Þarna er reykurinn tekinn burt, en eftir situr stórkostlega margslungið viskí, heil 64% en maður verður ekkert var við það. Sætt, heitt en stingur þó ekki, silkimjúkt með framandi ávaxtakeim svo sem mango. Annar hápunktur. 96

Knockando er verksmiðja frá bökkum árinnar Spey. Knockando er ekki verksmiðja sem ég hef verið hrifinn af gegnum tíðina, alltaf fundist það sem ég hef smakkað þaðan afar dauft og lítt aðlaðandi. Þetta varð ekki til að auka álit mitt á Knockando. Það er ákveðinn keimur af sumum viskíum sem ég felli mig engan veginn við og hann er akkúrat að finna í þessari útgáfu. Þurrt, biturt og hund, hundleiðinlegt. Mæli engan veginn með þess, en við höfum öll mismunandi smekk! 65

Lagavulin er stórgott viskí vanalega, eitt af þeim reyktustu. Síðustu árgangar af 12 ára, óþynntu útgáfunni hafa verið frekar daprir þó stórgóð viskí séu þau vissulega. maður bara hefur búist við meiru af Lagavulin. Þessi bomba kom mér  því á óvart. Mín upplifun var sú að hún lyktaði alls ekkert svo reykt til að byrja með. Reykjarmagnið minnti mig kannski svolítið á Bowmore, bara svona léttreykt. Svo kom að því að dreypa á kvikindinu. Þá losnaði um þessa reykjar-mó bombu og hef ég varla upplifað annað eins. Það bragðaðist miklu, miklu reyktara en það lyktaði og kom unaðslega á óvart loksins þegar ég smakkaði á því. Lyktaði ótrúlega milt, en svo sparkaði það duglega í rassgatið á mér þegar ég smakkaði það. Sjaldan hefur nokkuð viskí komið mér svona á óvart. Eitt lengsta eftirbragð sem ég hef fundið. 95

Port Dundas er kornviskí sem er ekki lengur framleitt. Töluverð sérríáhrif, þó alls ekki of mikil. Gott jafnvægi. Mikil sæta, mólassi og nokkur keimur af sætu rommi, vanillu, ögn þurrt þó ekki of, hnetur. Ofsalega gott og mjúkt eftirbragð. Ef þið hafið tök á að smakka bokku af þessum óskunda, þá mæli ég hiklaust með því. Þó er þetta afar, afar sjaldgæft og tel ég mig lukkunnar pamfíl að hafa fengið tækifæri á að væta kverkarnar með þessu sjaldgæfa lífsins vatni. 92

Port Ellen var lokað árið 1983 eins og svo mörgum öðrum skoskum verksmiðjum. Diageo gefur árlega út eina Ellenu. Ungt Port Ellen er víst vanalega mjög reykt en hefur það orð á sér að tapa reyknum frekar snarlega við þroskun. Þessi fannst mér reyktari en síðustu tvær útgáfur voru í minningunni þó svo ekki væri mikill reykjarkeimur af lyktinni. Bragðið var ögn reyktara en lyktin gaf til kynna, en þó bar meira á söltugum mókeim, moldarbragð einhvern veginn..sem er mjög gott! Þetta var fáránlega gott viskí, en ofsalega erfitt að lýsa bragðinu án þess að það hljómi fráhrindandi. Mór, mold, salt, þari. 94

Rosebank var lokað árið 1993. Rosaebank var láglandaviski, þríeimað, létt, blómlegt og fersk og það er akkúrat lýsing sem á við þessa útgáfu. Léttur og ferskur ávaxtakeimur, lime, sítróna, fremur stutt, kryddað eftirbragð. Ekki viskí sem ég myndi vanalega fá mér, en sem þesskonar viskí, þríeimað og létt, er þetta virkilega gott. Silkimjúkt og viðkunnanlegt. 89

Sigurvegari kvöldsins er því Brora. Eitt allra, allra besta viskí sem ég hef tungu minni vafið. Hafið þið tök á að dreypa á Brorunni, ekki hika við það….gæti kostað smávegis þó þar sem verðlag á viskí í dag er rokið upp úr öllu valdi vegna einhverra moldríkra (nýríkra?) ríkisbubba um allan heim sem finnst óttalega svalt að slá um sig með flottum viskíflöskum. Viskí ætti aldrei að kosta tugi eða hundruðir þúsunda, jafnvel milljónir að mínu viti. Það skemmir svo mikið fyrir hinum venjulega neytanda og viskíáhugamanni sem kann að meta dropann.

                  


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.