Hvernig er viskí búið til?

Hér er stiklað á stóru um það hvernig maltviskí er framleitt, án þess þó að fara of djúpt og tæknilega í það, því það er hundleiðinlegt. Ef við horfum til einmöltunga, þ.e.a.s. viskí gerð eingöngu úr möltuðu byggi, þá er oftast talað um fimm stig ferlisins: Möltun, mesking, gerjun, eiming og þroskun.

Möltun:

Bygg inniheldur sterkju og það er hún sem þarf að breyta yfir í sykrur til að búa síðan til áfengi. Við möltunina er byggið lagt í bleyti í tiltekinn tíma, ca. 2-3 daga, stundum meira í þar til gerðum kerjum til að koma spírun í gang, brjóta niður sterkjuna í bygginu í tvísykrur.

Að því loknu er breitt úr bygginu á möltunargólfið og er það látið spíra þar. Möltunargólfið er einfaldlega steinsteypt gólf í stórum sal. Það ferli tekur um viku til 10/11 daga. Myndin að neðan er möltunargólf Laphroaig. Bygginu er snúið og velt um reglulega á þeim tíma, með handafli, til að hafa betri stjórn á hitastiginu og þar af leiðandi spírunarferlinu. Einnig kemur það í veg fyrir að það bygg sem er næst gólfinu mygli. Þegar spírunin hefur náð réttu stigi er hún stöðvuð og byggið þurrkað yfir eldi. Eldsneytið er kol og/eða mór eða hitað með gufu. Sé meiningin að búa til reykt viskí þá er móreykur látinn leika um byggið í þurrkofnunum. Það er þaðan sem reykta bragðið kemur. Oft heldur fólk að reykta bragðið komi úr eikinni því hún er oftast ristuð að innan, en það stafar ekkert reykbragð af henni. Ristunin opnar eikina, myndar litlar sprungur í henni til að fá meiri kryddaðan eikartón í viskíið.

Mesking:

Þegar byggið, sem nú heitir malt, er orðið þurrt er það malað í kvörn. Að því loknu kemur hið svokallaða mashtun, eða meskiker til sögunnar, sem er stórt, hringlaga ker með hringsnúandi spöðum að innanverðu. Vatnsleysanleg sterkjan, sem myndaðist þegar maltið spíraði, mun þar breytast í sykurkenndan vökva, oft nefndur maltvökvi. Það gerist fyrir tilstuðlan heits vatns sem bætt er út í kerið.  Maltvökvinn (wort) er notaður til viskígerðarinnar, en afgangurinn, botnfallið/hratið, nýttur í skepnufóður.

Gerjun:

Maltvökvinn er síðan færður yfir í gríðarstór ker, gerjunartanka, sem oft eru byggðir úr viði, annars stáli og þar er geri bætt við hann. (Margar verksmiðjur hafa undanfarið farið notast við stálker í auknu mæli, því hreinsun og viðhald á viðartönkunum er umfangsmikið verk en mygla á það til að setjast í sprungur í þeim. Þetta hefur engin teljandi áhrif á bragðið enda staldrar vökvinn ekki svo lengi við þar.) Gersveppurinn gerjar sykrurnar og úr verður alkóhól. Vökvinn er þá nefndur „wash“ sem kannski mætti útleggjast sem vask en sumir myndu nota orðið gambri, en á þessu stigi minnir vökvinn töluvert á bjór, enda má nokkurn veginn segja að viskí sé eimaður bjór.

Eiming:

Vaskið er nú sett í heljarstóra koparkatla, pot stills, eða potteimara, þar sem það er hitað/eimað. Þar sem suðumark alkóhóls er lægra en vatns, þá gufar alkóhólið upp fyrr og stígur upp í þar til gerð rör þar sem það er þétt með kælingu.

Í Skotlandi er viskí oftast tvíeimað og eru vanalega tvær tegundir eimingarkatla í hverri verksmiðju, wash-still, eða vask/gambraeimari og spíraeimarinn, eða spirit still. Við þessa fyrri eimun eru ýmsar leifar af gerinu og
ýmis önnur efni og hrat skiluð frá vaskinu. Að þessu loknu er vökvinn eimaður aftur til að framleiða maltvískí.

Þessi tvíeimun verður til þess að skosk viskí hafa meiri karakter heldur en t.d. írsk, sem eru þríeimuð og léttari og keimlík hvert öðru, með undantekningum þó. Hvert skoskt viskí ber meiri keim af hráefninu svo að segja sem veldur því að skosk viskí eru óhemju misjöfn, hvert viskí ber sterkan keim sinnar verksmiðju. Auk þess hefur lögun eimarans og sérstaklega lögun og lengd hálsins mikil áhrif á bragð og áferð. Þumalputtareglan er, því hærri og mjórri sem hálsinn er, því léttara viskí og því styttri og feitari, því þyngra og bragðmeira.

Þroskun:

Síðan er gúmmelaðinu skellt á eikartunnur, oftast amerískar tunnur sem hafa verið notaðar til að þroska búrbonvískí, og látið þroskast þar í að minnsta kosti þrjú ár. Einnig er mjög algengt að notast við tunnur sem hafa innihaldið sérrí.

maltfloor
Hér er byggið að spíra og verða að malti á möltunargólfinu

mashtun

ancnoc2
Gordon Bruce, forstjóri Knockdhu
ancnoc4
Potteimarar í Knockdhu

 


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.